Spurði hvort hann ætti að vera Gorbatsjov

04.09.2019 - 17:05
Mynd: Rúv / Rúv
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tók á móti Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna í Höfða í hádeginu í dag. Þar ræddu þeir saman um sögu hússins og samband Bandaríkjanna og Íslands, sérstaklega með tilliti til varnarmála. Varaforsetinn sagðist hlakka til víðtækra viðræðna um viðskipti og öryggis- og varnarmál. Forsetinn sagðist vona að Pence nyti heimsóknarinnar. Hann fengi vonandi að kynnast gildum Íslendinga, svo sem frelsi, fjölbreytileika, alþjóðasamvinnu og virðingu við náungann.

Sagan kraftmikil

Guðni fór stuttlega yfir sögu hússins og rifjaði upp leiðtogafund Ronalds Reagan, þáverandi forseta Bandaríkjanna og Mikhaíls Gorbatsjov, þáverandi leiðtoga Sovétríkjanna, í Höfða árið 1986.

Pence sagði það hafa verið að margra mati á þessum fundi sem Sovétríkin byrjuðu að liðast í sundur vegna sterkrar afstöðu þáverandi Bandaríkjaforseta. Heimurinn hafi öðlast frelsi í kjölfarið. Hann líkti upplifun sinni í húsinu við þá tilfinningu sem hann fékk þegar hann var í Póllandi á dögunum að minnast upphafs seinni heimsstyrjaldarinnar fyrir 80 árum.

Áður en ráðamennirnir fengu sér sæti spurði forseti Íslands Pence hvort hann ætti að vera Gorbatsjov, og benti á stólinn sem þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna sat í. 

Varnarmál fyrirferðarmikil

Varaforsetinn sagði að þjóðirnar tvær hefðu verið bandamenn í öryggis- og varnarmálum frá stofnun Atlantshafsbandalagsins. Bandaríkin væru þakklát fyrir samstarfið.

„Við erum þakklát Íslendingum fyrir samstarf í varnarmálum og veru bandarísks herafla á Íslandi og hér í kring í starfi okkar að sameiginlegum vörnum ríkjanna beggja,“ sagði varaforsetinn. 

Síðar í dag, á fundi með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra lýsti Pence yfir áhyggjum yfir aukinni umferð og umsvifum Rússa og Kínverja á norðurslóðum. Í ávarpi, fyrir framan Höfða, sagði Pence að Bandaríkin væru mjög ákveðin í því að styrkja varnir Íslands og tryggja öryggi. Varnarsvæðið í Keflavík er mikilvægur liður í því, sagði varaforsetinn.

 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi