Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Sprungur sjást norðan Dyngjujökuls

27.08.2014 - 20:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Greinilegar sprungur sjást á yfirborði Holuhrauns, norðan við Dyngjujökul, vegna kvikugangsins sem þar hefur verið að ryðja sér leið djúpt ofaní jörðinni. Jarðvísindamenn sáu sprungurnar í dag, í eftirlitsflugi með TF SIF, vél Landhelgisgæslunnar.

Á þessum myndum sem teknar voru í dag sjást greinilega nýjar sprungur, bæði í móbergshrygg í Holuhrauni og einnig í hrauninu sjálfu, norðaustan við hrygginn. Stóra sprungan í miðjum hryggnum er gömul, segir Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Jarðvísindastofnun HÍ, en greinilegt er að hún hefur hreyfst til. „Þær sem minni eru við hrygginn og í Holuhrauni eru greinilega nýjar,“ segir Páll. 

„Þetta þarf ekki endilega að þýða að kvika sé á leið upp á yfirborðið,“ segir Páll. „En þetta er hinsvegar að öllum líkindum staðurinn þar sem gliðnun er hvað mest í jarðlögunum undir niðri, þar sem kvikugangurinn er að troða sér í norðurátt, og ummerkin á yfirborðinu bera þess vitni hvað er í gangi undir niðri. “ 

Páll segir að svona nokkuð hafi sést áður í tengslum við kvikuhlaup neðanjarðar, til dæmis í Kröflueldunum. „Sérstaklega sást þetta í kvikuhlaupunum sem fóru hvað lengst út frá Kröflu, alla leið í Kelduhverfi. Þar sáust sprungur í byggð, en kvika kom hins vegar ekki upp á yfirborðið í þeim tilvikum, þannig að svona ummerki þurfa ekki að þýða að eldsumbrot séu í vændum.“'

Á myndinni að neðan sést Holuhraun. Nýjar sprungur sjást til móts við móbergshrygginn og fyrir norðaustan hann.