Sprungur í verkalýðshreyfingunni á 1. maí

30.04.2017 - 18:27
Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, verða á meðal ræðumanna á útifundi á Austurvelli á morgun á sama tíma og samstöðufundur verkalýðsfélaganna í Reykjavík fer fram á Ingólfstorgi venju samkvæmt, 100 metrum frá. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segist ekki skilja hvernig menn telji að þetta hjálpi verkalýðsbaráttunni.

Það voru aðstandendur Sósíalistaflokks Íslands, sem verður formlega stofnaður á morgun, sem áttu frumkvæði að þessum fundi, sem haldinn er undir yfirskriftinni „Við viljum hreyfinguna okkar aftur“. Í tilkynningu fyrir fundinn segir: „Endurheimtum verkalýðshreyfinga sem baráttutæki fyrir launafólk fyrir réttlátu samfélagi.“ Aðrir ræðumenn á fundinum verða Sólveig Anna Jónsdóttir verkakona, Ásthildur Lóa Þórsdóttir kennari, Heiðveig María Einarsdóttir, fyrrverandi sjómaður, og Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósílalistaflokksins og fyrrverandi ritstjóri.

Ragnar var kjörinn formaður VR í mars og hefur verið harðorður í garð ASÍ. Hann hefur lýst yfir vantrausti á forystu sambandsins og ákveðið að taka ekki sæti í miðstjórn þess.

„Fáum ekki að stíga á hinn pallinn“

Ellen Calmon segist meðal annars hafa ákveðið að tala á fundinum á Austurvelli á morgun vegna þess að hún hafi undanfarin ár óskað eftir því að fá að tala á fundi verkalýðsfélaganna á Ingólfstorgi en án árangurs. Hún hafi ekki beðið um það í ár, enda hafi hún talið það vera vonlaust. „Við reynum að hafa áhrif á þessum palli, fyrst við fáum ekki að stíga á hinn pallinn,“ segir hún um nýja fundinn.

Hún segist telja að verkalýðshreyfingin eigi að berjast fyrir bættum kjörum örorkulífeyrisþega. „Við höfum hvatt verkalýðshreyfinguna til að vinna fyrir okkar fólk líka en sú hvatning hefur ekki fengið þann hljómgrunn sem við hefðum viljað fá,“ útskýrir Ellen.

Hún bendir á að örorka ætti líka að vera mál sem stéttarfélögin létu sig varða, enda hlytist hún oft af mikilli vinnu, fólk brenni upp í starfi og geðið eða líkaminn gefi sig á endanum.

Ellen segir að henni finnist að öryrkjar ættu að geta átt aðild að verkalýðsfélögum til að njóta kjara sem þar bjóðast. Hún nefnir dæmi um sumarbústaðaleigu á góðum kjörum, sem gæti nýst þeim vel sem minnst hafa á milli handanna. Nú sé þeim hins vegar úthúst úr stéttarfélögunum eftir að þeir verða örorkulífeyrisþegar. „Þeim er markvisst bolað út,“ segir hún.

„Finnst þetta mjög miður“

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, er ekki í skýjunum með þennan fund á Austurvelli. „Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta mjög miður. 1. maí er alþjóðlegur baráttudagur verkafólks – dagur sem við notum til að sýna samstöðu með verkafólki – og þá skýtur skökku við að á sama tíma sé haldinn fundur um svipað málefni en kosið að gera það annars staðar. Ég skil ekki hvernig eigi að ná fram baráttumálum verkamanna og launamanna með því að kljúfa þá.“

Spurður um óánægju Ellenar og Öryrkjabandalagsins segir hann blasa við að stéttarfélögin hafi stutt vel við bakið á kröfum öryrkja í gegnum tíðina. Eftir standi þó að Öryrkjabandalagið sé ekki stéttarfélag, sem skýri væntanlega hvers fulltrúar þess hafi ekki fengið að tala á fundinum á Ingólfstorgi, þótt Gylfi taki fram að hann velji ekki ræðumenn á þá fundi.

 

 

 

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi