Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Sprungur í Holuhrauni á myndbandi

28.08.2014 - 12:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Greinileg ummerki um kraftana í umbrotunum í Vatnajökli og norður af honum sjást vel á þessari upptöku Ómars Ragnarssonar sem flaug yfir svæðið snemma í morgun.

Í upphafi myndbandsins sjást Skaftárkatlar í Vatnajökli með Bárðarbungu í baksýn. Þá er flogið nær bungunni og þar sjást eins konar dældir í jöklinum. Ætla má að þarna séu merki um sigdældirnar sem fyrst varð vart í skoðunarflugi vísindamanna yfir jökulinn í gær. 

Þá er flogið að jökulrótum, Dyngjujökli, og er gott útsýni norður af jöklinum og má meðal annars sjá í Herðubreið. Þegar flogið er nær sést hvar Jökulsá á Fjöllum rennur undan jöklinum. Hraunið sem þarna sést er Holuhraun sem talið er að hafi myndast í eldgosi 1797. 

Þegar 45 sekúndur eru liðnar af myndbandinu sjást greinilega sprungur við hraunið. Þetta eru gliðnunarsprungur. Talið er að þær hafi myndast á síðustu dögum þegar kvikan í bergganginum ruddi sér leið norður ganginn undan jöklinum undir hraunið. Krafturinn í ganginum er svo mikill að nokkrum kílómetrum ofanjarðar myndast sprungur.  

Þegar 1 mínúta og 11 sekúndur eru liðnar af myndbandinu sést stór sprunga á móbergshrygg. Páll Einarsson jarðeðlisfræðiprófessor við Háskóla Íslands sagði við Fréttastofu í gærkvöld að þessi sprunga væri gömul en greinilegt væri að hún hefði hreyfst til. "Þær sem minni eru við hrygginn og í Holuhrauni eru greinilega nýjar", sagði Páll.

Páll segir að svona nokkuð hafi sést áður í tengslum við kvikuhlaup neðanjarðar, til dæmis í Kröflueldunum. „Sérstaklega sást þetta í kvikuhlaupunum sem fóru hvað lengst út frá Kröflu, alla leið í Kelduhverfi. Þar sáust sprungur í byggð, en kvika kom hins vegar ekki upp á yfirborðið í þeim tilvikum, þannig að svona ummerki þurfa ekki að þýða að eldsumbrot séu í vændum.“

Það sem eftir lifir myndbandsins sem Ómar Ragnarsson tók í morgun sjást margar fleiri sprungur. Ekki er hægt að slá því föstu að allar þeirra séu nýmyndaðar áður en jarðfræðingar hafa litið yfir þær.