Athugið þessi frétt er meira en 13 ára gömul.

Sprungan hugsanlega að stækka

22.03.2010 - 12:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Steinunn Jakobsdóttir jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir hægan stíganda í gosinu á Fimmvörðuhálsi og líklegt er talið að gossprungan hafi nú lengst til norðausturs. Rennsli Krossár jókst skyndilega í morgun og vatnshiti í ánni rauk upp um nokkrar gráður.

Sjónarvottar sögðu í morgun að gossprungan á Fimmvörðuhálsi hefði lengst og að þar hefði sést gufusprenging, sem þýðir að kvikan sem þarna kemur upp, hefur verið að bræða ís eða snjó. Jarðfræðingar á Veðurstofu íslands, sátu á fundi fyrir hádegið til að meta stöðuna.

Steinunn segir að lengri sprunga þurfi ekki að þýða meiri ösku. Þá megi ekki gera ráð fyrir að Katla gjósi í beinu framhaldi af gosi undir Eyjafjallajökli þó ákveðin tenging sé þar á milli. Ekkert bendi til þess að gos verði í Kötlu, en búast megi við kröftugri aðdraganda að Kötlugosi. 

Hér má horfa á myndskeið sem tekið var austan við Hellu í morgun.

Annað myndskeið. Horfa

Leiðunum inn í Þórsmörk, upp á Skógaheiði, og inn í Fljótsdal fyrir innan Fljótshlíð hefur verið lokað fyrir umferð. Þetta var ákveðið á Almannavarnarfundi sem lauk á Hellu rétt fyrir klukkan ellefu. Talsvert hefur borið á því að fólk sé að fara lengra en til er ætlast. Besta útsýnið er frá Fljótshlíð, en þangað er fólki heimilt að fara. Ábúendur á bæjunum fjórtán sem ekki fengu að gista heima í nótt fá nú að halda til síns heima.

Landhelgisgæslan fer í könnunarflug yfir eldstöðvarnar klukkan eitt í dag.


Tengdar fréttir: