Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sprettur fram sem mjög fær höfundur

Mynd: Samsett mynd / bjornhalldorsson.com

Sprettur fram sem mjög fær höfundur

05.10.2017 - 15:21

Höfundar

Smásagnasafnið Smáglæpir er býsna sterkt verk að móti gagnrýnenda Kiljunnar en það er fyrsta bók höfundarins Björns Halldórssonar.

Kolbrún Bergþórsdóttir segir að það sem sögurnar eigi sameiginlegt sé að margt sé á seyði undir yfirborðinu; brotnar fjölskyldur, grimmd og glæpir. „Ekkert endilega smáglæpir eins og í titlinum, stundum grunar mann að það hafi verið framin morð.“ Kolbrún segir Björn skrifa góðan stíl og vera lunkinn við lýsingar, einkum á börnum og gamalmennum. Almennt sé allt nokkuð kyrrt á yfirborðinu í sögunum en svo komi sjokkerandi atvik inn á milli eins og þegar lítill drengur sýnir ketti mikla grimmd.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kolbrún Bergþórsdóttir og Sigurður Valgeirsson.

„Já hann sprettur fram sem mjög fær höfundur í þessari bók,“ segir Sigurður Valgeirsson. „Ef það er eitt sem ég má setja út á þá var það að mér var nokkuð sama um marga í bókinni.“ Kolbrún segist sammála því að hluta til. „Hann þarf bara að meitla aðeins stílinn og styrkja sig, þá kemur þessi samúð. En sem fyrsta bók er þetta mjög gott,“ segir hún og Sigurður tekur undir: „Við getum verið fullviss um að hann á eftir að skrifa fleiri og betri bækur.“