Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Sprengjumaðurinn einn að verki

11.02.2012 - 18:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Rúmlega sjötugur karlmaður, sem vildi koma skilaboðum til stjórnvalda, hefur játað að hafa komið fyrir sprengju skammt frá Stjórnarráðshúsinu um síðustu mánaðamót. Upplýsingar ungrar konu, sem sá mann og bíl við Hverfisgötuna þennan morgun, urðu til þess að auðvelda rannsókn málsins.

Maðurinn var handtekinn í gær en við húsleit á heimili hans var lagt hald á ýmsan búnað, þar á meðal rafeindakveikibúnað en slíkur búnaður var notaður ásamt bensíni í sprengjuna. Þá var bíll mannsins, sem er sömu tegundar og sá sem sást fara af vettvangi, tekinn í vörslu lögreglu.

Samkvæmt lögreglu játaði maðurinn við yfirheyrslu að hafa komið sprengjunni fyrir neðst á Hverfisgötunni þriðjudagsmorguninn 31. janúar. Sprengjan var ekki nógu öflug til að hætta stafaði af henni og stóð maðurinn við hlið hennar þegar hún sprakk. Að sögn lögreglu var tilgangur mannsins ekki að valda skaða heldur vildi hann koma ákveðnum skilaboðum til stjórnvalda. Hver þau voru hefur ekki verið gefið upp en samkvæmt heimildum fréttastofu voru þetta yfirlýsingar um ríkisstjórnina og framgöngu hennar en ekki hótanir. Skilaboðin setti maðurinn í málmhólk sem var festur við sprengjuna. Reglubundinn ríkisstjórnarfundur hófst eins og venjulega um níuleytið þennan morgun en þá voru sprengjusveitir lögreglu og Landhelgisgæslunnar enn að störfum fyrir utan.  

Ekkert tjón varð af völdum sprengjunnar en málið var hins vegar litið mjög alvarlegum augum. Viðbúnaður á vettvangi var mikill og fjölmargir voru kallaðir til skýrslutöku. Ung kona, sem var á gangi í Ingólfsstræti þegar sprengjan sprakk, gat gefið lögreglu greinargóða lýsingu á manni sem flúði vettvanginn á bíl. Urðu þær upplýsingar til að auðvelda mjög rannsókn málsins. 

Í ljós hefur komið að maðurinn var einn að verki og þar sem aðrir liggja ekki undir grun telst málið upplýst.