Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sprengjuleitaræfingin mikilvæg Íslendingum

21.09.2018 - 20:20
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Alþjóðleg NATO-æfing sprengjusérfræðinga sem fram fer hér á landi er gríðarlega mikilvæg reynsla fyrir Íslendinga, segir sérfræðingur hjá Landhelgisgæslunni. Alls taka 250 manns frá NATO og Landhelgisgæslunni þátt í æfingunum. 

Þetta er í sautjánda sinn sem þessi æfing er haldin og er tilgangur hennar að æfa viðbrögð við hryðjuverkaárásum þar sem heimatilbúnum sprengjum hefur verið komið fyrir. Reynt er að gera aðstæður eins raunverulegar og hægt er og búinn er til samskonar búnaður og fundist hefur víðs vegar um heim. 

Ásgeir R. Guðjónsson, sprengjusérfræðingur hjá Landhelgisgæslunni segir æfingarnar gríðarlega mikilvægar. „Þetta er í raun eina æfingin innan NATO sem er með fókusinn beint á sprengjusérfræðinginn, það er að segja hann fær að vinna sína vinnu í umhverfi sem er, já, vindsamt og kalt, má segja,“ segir Ásgeir.

Það var sannarlega vindasamt og kalt í Helguvík í dag þegar sviðsettar voru aðstæður þar sem hryðjuverkasprengjur fundust annars vegar á landi og hins vegar í sjó. Sýnt var hvernig sprengjusérfræðingar eyddu hættunni sem af sprengjunum stafaði, ýmist með hjálp róbóta eða búnaðar sem kafarar komu fyrir.

Æfingin þykir ein sú mikilvægasta í Evrópu. Hún stendur yfir í tvær vikur og taka nú þátt 25 hópar frá 16 þjóðum, alls um 250 manns. Ásgeir segir æfingarnar þýðingarmiklar fyrir Íslendinga. „Já alveg klárlega“, segir Ásgeir. „Við fáum náttúrulega mikið tengslanet, mikla þjálfun og æfingu og reynslu sem er mjög mikilvægt í þessum heimi, með okkar litla land, að halda alþjóðlegum tengslum í lagi og við fáum mikið út úr þessu sjálfir.“

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir