Sprengjuárás tveimur dögum eftir friðarsáttmála

03.03.2020 - 04:45
epaselect epa08261626 US Special Representative for Afghanistan Reconciliation Zalmay Khalilzad (L) and Taliban co-founder Mullah Abdul Ghani Baradar shake hands during the signing ceremony of the US-Taliban peace agreement in Doha, Qatar, 29 February 2020 (issued 01 March 2020). The United States and the Taliban on 29 February penned a historic Agreement to Bringing Peace to Afghanistan which paves the way for the withdrawal of US troops and intra-Afghan negotiations.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þrír létu lífið og ellefu særðust eftir sprengjuárás á fótboltaleik í austurhluta Afganistans í gær. Talibanar undirrituðu friðarsáttmála við Bandaríkin um helgina, eftir einnar viku samkomulag um að draga úr hernaði í landinu. Í sáttmála Bandaríkjanna og Talibana lofa Bandaríkin að draga allan erlendan her úr landinu innan fjórtán mánaða ef Talibanar hefja friðarviðræður við afgönsk stjórnvöld. 

Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni í gær. Talsmaður Talibana greindi hins vegar fjölmiðlum frá því þeir ætluðu að halda aðgerðum sínum áfram þar sem samkomulagi um minni átök í eina viku væri nú runnið út. Ekki verði ráðist á erlenda heri, en aðgerðirnar beinist áfram gegn stjórnvöldum í Kabúl, hefur Guardian eftir talsmanninum.

Afganir segjast ekki skuldbundnir sáttmálanum

Alls er óvíst hvernig friðarviðræðum innan Afganistans á eftir að farnast. Bandaríkin sömdu um að fimm þúsund Talibanar verði leystir úr haldi, en afgönsk stjórnvöld segjast alls ekki skuldbundin því. Sediq Sediqqi, talsmaður Ashrafs Ghani, forseta Afganistans, segir stjórn hans ekki hafa samþykkt að leysa fimm þúsund fanga sem skilyrði fyrir viðræðum. Talsmaður Talibana segir á móti að engar viðræður hefjist fyrr en búið verði að frelsa þá úr prísundinni.

Gagnrýnendur sáttmála Bandaríkjanna og Talibana bentu á að þetta gæti orðið vandamál. Sér í lagi þar sem talað er um að allt að fimm þúsund Talibanar verði leystir úr haldi fyrir 10. mars, í stað aðeins eitt þúsund stjórnarhermanna í haldi Talibana.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi