Brúin yfir Lagarfljót á Héraði er byggð 1905 og er enn á upprunalegum undirstöðum. Brúin var síðan breikkuð fyrir um 60 árum. Hún er því komin til ára sinna. Brúargólfið er farið að láta verulega á sjá. Trégólfið er illa farið og grindin sem á að hlífa því - götótt víða.
„Núna í sumar keyrði nú í þverbak. Á einum mánuði sprakk þrisvar á bílnum hjá mér. Fékk nagla og svo í þriðja stykkið fékk ég stórt járnstykki. Það rifnaði alveg hreint gat á dekkið en ég komst yfir brúnna og stoppaði þar,“ segir Baldvina Stefánsdóttir, íbúi í Fellabæ.
Þjóðvegur eitt liggur um Lagarfljótsbrú sem er mikilvæg samgönguæð milli Egilsstaða og Fellabæjar. Án hennar þyrftu vegfarendur að aka tæpa 70 kílómetra um Fljótsdal, til að komast leiðar sinnar. Kristdór Þór Gunnarsson, rekstrarstjóri Dekkjahallarinnar segir það hafa færst í aukana að vegfarendur fái aðskotahluti brot og hluti úr brúnni í dekkin.
„Í sumar hefur þetta verið þó nokkuð mikið. Alveg upp í einu sinni til tvisvar á dag að meðaltali,“ segir Kristdór. „Þetta eru svolítið stórar skrúfur þannig oft heyrir fólk að þetta er komið í. Þetta hefur alltaf verið aðeins að það kemur upp úr brúnni. En brúargólfið er greinilega orðið mjög léleg núna.“
Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir erfitt að bregðast við þessu ástandi án þess að fara í stórfelldar framkvæmdir. Til stendur að skipta um trégólfið um miðjan næsta mánuði. Það eigi að duga um hríð. Í júlí var hámarkshraði á brúnni lækkaður úr 50 í 30.
Þetta hlýtur að vera pirrandi? „Já mjög pirrandi. En þeir mega eiga það hjá Vegagerðinni. Þeir bættu mér þetta,“ segir Baldvina jafnframt.
Vegagerðin hefur bætt um 10 ökumönnum sambærilegt tjón. Samgönguáætlun gerir ráð fyrir fjárveitingu í nýja Lagarfljótsbrú á þriðja tímabili eða frá 2029-2033. „Maður hugsar alltaf í hvert skipti sem maður fer yfir brúnna skyldi springa hjá mér núna. Maður fer mjög rólega“