Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Sprengingar í eldgosinu norðan Vatnajökuls

02.09.2014 - 15:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Þrjár sprengingar urðu í gossprungunni í Holuhrauni, norðan Vatnajökuls, um þrjúleytið í dag. Vísindamenn sem voru við störf í Kverkfjöllum sáu þær. Einn þeirra, Þorbjörg Ágústsdóttir, segir að þær hafi verið svartar og örugglega ekki rykbólstrar.

Hún segir að svartur mökkur hafi stigið upp en hún sé í svo mikilli fjarlægð að hún geti ekki sagt til um hve hátt mökkurinn steig. Þorbjörg gerði samhæfingarstöð almannavarna viðvart. Fjöldi vísindamanna er á svæðinu en ekki er vitað til þess að neinn hafi verið við gosstöðvarnar þegar sprengingarnar urðu.

Skjálftavirkni á svæðinu hefur minnkað en enn mælast þó margir skjálftar. Jarðskjálfti af stærðinni 4,3 varð í Bárðarbungu laust fyrir klukkan tvö í dag. Skjálftinn varð í suðurbrún öskju eldfjallsins. Annar skjálfti, 4,7 að stærð, varð í norðurbrún Bárðarbungu á tólfta tímanum. Það er stærsti skjálftinn frá því jarðskjálfti 5,3 að stærð varð í fjallinu laust fyrir hádegi í gær. Jarðskjálftavirkni í og við Vatnajökul hefur minnkað um helming síðasta sólarhring.