Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sprenging í óbeinum vatnsinnflutningi

24.09.2019 - 16:24
Mynd: pixabay / pixabay
Innflutningur á gosi og bragðbættu vatni hefur rúmlega fjórfaldast á innan við tveimur árum. Þetta má lesa úr innflutningsskrá Hagstofunnar. Mest munar um stóraukinn gosinnflutning frá Svíþjóð. Verkfræðingur hjá Eflu segir kolefnisspor innfluttra drykkja hærra en þeirra sem framleiddir eru úr þykkni á Íslandi.

Rúmlega sex lítrar á mánuði

Í innflutningsskrá Hagstofunnar er hægt að skoða innflutning á drykkjum eftir tollskrárnúmerum, mánuð fyrir mánuð. Spegillinn skoðaði innflutning á kolsýrðu vatni, gosdrykkjum með og án sykurs, ýmsu bragðbættu vatni og óáfengu öli. Nokkrir tugir tollskrárnúmera voru undir. Í janúar 2017 voru flutt inn 552 þúsund kíló af þessum drykkjum sem samanstanda að stærstum hluta af vatni. Í júlí síðastliðnum hafði magnið fjórfaldast, var komið upp í 2,27 milljónir kílóa. Þetta þýðir að í janúar árið 2017 var flutt inn sem nemur um einum og hálfum lítra af gosi og bragðbættu vatni fyrir hvert mannsbarn á landinu, í júlí á þessu ári voru lítrarnir á hvern Íslending orðnir 6,3 á mánuði. Meginuppistaðan í þessu eru gosdrykkir í einnota áldósum.

Drykkirnir koma víða að

Innflutningur frá Austurríki, Hollandi, Sviss, Þýskalandi, Bretlandi og Danmörku hefur aukist verulega frá því í byrjun árs 2017 en ekkert land kemst þó með tærnar þar sem Svíþjóð hefur hælana. Í janúar 2017 komu tæplega 25 tonn af áldósum siglandi frá Svíaríki, í júlí 2019 voru tonnin 719, tæplega þrjátíu sinnum fleiri. Það er líka nokkuð aukinn innflutningur á drykkjum í glerflöskum en innflutningur á drykkjum í plastflöskum hefur ekki aukist jafn mikið. 

Mynd með færslu
 Mynd: public domain pictures
Dósirnar drífa aukninguna.

Kókið og Costco

Það hafa orðið ákveðnar breytingar sem skýra þetta að hluta, fyrst má nefna orkudrykkjaæði, Nocco-drykkirnir eru fluttir inn í áldósum frá Svíþjóð. Í öðru lagi má nefna innreið heildsölurisans Costco á íslenskan markað í maí 2017. Þar eru seldir ýmsir innfluttir drykkir. Á upphafsdögum verslunarinnar vakti athygli að stykkjaverðið á hálfslítra plastflösku af vatni var tæplega fimm krónum lægra en skilagjaldið á sams konar flösku, seldar voru 40 vatnsflöskur saman og kostaði stykkið 11,2 krónur. Það sem kannski hefur haft mest áhrif er að árið 2017 hætti Coca Cola European Partners á Íslandi, áður Vífilfell, að framleiða kók í dós og gleri á Íslandi, í staðinn eru átappaðar flöskur og dósir nú fluttar inn frá Svíþjóð, kókþykknið blandað með sænsku vatni í stað íslensks. Enn er þó tappað á plastflöskur hér. Í grein sem birtist í Viðskiptablaðinu vorið 2017 kemur fram að þetta hafi verið gert í sparnaðarskyni. Þá tengdist þetta komu heildsölurisans Costco. Eftirspurn eftir því að kaupa margar dósir saman í pakka hafði að sögn forstjóra Coca Cola European Partners aukist og í stað þess að fjárfesta sérstaklega í nýrri pökkunarvél hér var ákveðið að flytja drykkina inn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson
Frá opnun Costco í maí 2017.

Vatnsinnflutningur vatnsþjóðar

Það er kannski eitthvað kaldhæðnislegt við það að verið sé að fytja vatn og vatnsblandaða drykki í stórum stíl til Íslands, lands sem er vellauðugt af vatni. Svo er spurning hvaða áhrif það hefur á kolefnissporið. Alexandra Kjeld, umhverfisverkfræðingur hjá Eflu, Verkfræðistofu hefur skoðað það. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Alexandra Kjeld, umhverfisverkfræðingur hjá Eflu.

Efla vann nýlega könnun fyrir Ölgerðina. Niðurstöðurnar hafa ekki verið birtar. Meðal annars voru borin saman loftslagsáhrif þess að flytja mismunandi drykkjarumbúðir tómar til landsins og fylla á þær hér eða tappa á flöskur og dósir erlendis og flytja þær tilbúnar til landsins. „Ef það er annar valkostur, innlendur þá er hann alltaf betri, það er alveg augljóst. Við sjáum það líka bara í umræðunni, menn eru að tala um hringrásarhagkerfið. Það borgar sig ekki að flytja inn óþarfa þyngdir. Eins og með hreinsiefni, við gætum verið með eitthvert þykkni í umbúðum og svo bara fyllt á með íslensku vatni. Það eru svona dæmi sem er verið að skoða í síauknum mæli,“ segir Alexandra, það að flytja ekki inn vatn að óþörfu sé dæmi um auðvelda loftslagsaðgerð. 

A container is loaded onto a cargo ship at a port in Qingdao in east China's Shandong province, Sunday, April 8, 2018. Amid falling markets, President Donald Trump's new economic adviser, Larry Kudlow, says there is no trade war between the U.S.
 Mynd: AP
Flöskur og dósir eru fluttar hingað með skipum.

Samanburðurinn sem Efla gerði fyrir Ölgerðina tók einungis til kolefnisspors við framleiðslu umbúðanna og flutning tómra eða fullra umbúða sjóleiðina til Íslands. Samanburðurinn tók ekki til framleiðslu á drykknum sjálfum - svo sem sykurs og bragðefna. 

Plast og ál betra en gler

Þegar einungis er horft til umbúða - þá hafa plast- og álumbúðir vinninginn að sögn Alexöndru. Þær eru léttar, áldósirnar eru að stórum hluta úr endurunnu áli og það færist í vöxt að plastflöskur séu að hluta úr endurunnu plasti, svokölluðu R-petti. Alexandra segir að glerflöskur séu verri kostur, framleiðsla á gleri, þrátt fyrir að flöskur sem fluttar eru inn séu oft úr endurunnu gleri þá krefjist framleiðsla glers mjög mikillar orku og svo sé ekki hægt að líta framhjá þyngdinni. Þegar horft er til örlaga umbúðanna hallar líka á glerið. Alexandra segir að plast og ál séu hluti af hringrásarhagkerfinu. Glerið sem við förum með í endurvinnslustöðvar á Íslandi er aftur á móti ekki endurunnið heldur notað sem fyllingarefni, til dæmis við vegagerð eða þá að því er dreift yfir sorphauga til að sporna við rottugangi. Ætli rottum sé ekki jafn illa við að ganga á glerbrotum og okkur. 

Mynd með færslu
 Mynd: peakpx
Glerið er ekkert svo grænt að sögn Alexöndru.

Hversu miklu munar? 

Alexandra segir að með tilliti til kolefnisspors borgi sig að tappa á flöskur og dósir hér í stað þess að flytja þær fullar yfir hafið en hversu mikill er munurinn? Alexöndru reiknast til að kolefnisspor af flutningi fullrar hálfslítradósar sem flutt er frá Helsingborg í Svíþjóð til Reykjavíkurhafnar sé 78 grömm af koltvísýringsígildum. Kolefnisspor dósar sem flutt er tóm sömu leið sé 71 gramm. Muninn má rekja til þess að losun vegna flutnings er tvöfalt meiri í tilfelli fullu dósarinnar. Munurinn er ekki mikill enda ekki sérlega hagkvæmt að flytja tómar áldósir en sex grömm á dós eru sex grömm á dós og það safnast þegar saman kemur.

Mismikið hagræði í flutningi tómra umbúða

Þegar horft er til hálfslítraplastflaskna er munurinn á flutningssporinu meiri. Kolefnisspor tómrar flösku sem flutt er frá höfninni í Gdynia í Póllandi til Reykjavíkurhafnar nemur 77 grömmum af koltvísýringsígildum en þegar búið er að tappa á flöskuna er losunin næstum tvöfalt meiri, 140 grömm. Það skrifast fyrst á fremst á flutninginn, sem hefur átján sinnum stærra kolefnisspor þegar flaskan er full. Það er mikið hagræði í því fólgið að flytja flöskuna tóma.  „Þær koma eins og pínulítil mæliglös, þetta eru frekar litlar einingar, heita preform. Það er hægt að flytja mikið magn í litlu rúmmáli. Ef við flytjum þær tómar á þessu formi til landsins þá eru flutningarnir hagkvæmir og við notum íslenska raforku til að blása þær út, ef við fyllum á þær erlendis notum við erlenda raforku til að móta þær og flytjum að auki margfalda þyngd,“ útskýrir Alexandra. „Flutningarnir gátu jafnvel náð kolefnisspori framleiðslunnar sjálfrar á plastflöskunni, sem er svolítið sláandi. Þetta er auðvitað mjög létt eining og þegar þú ert búinn að margfalda þyngdina þá munar auðvitað um það.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Preform-Petflaska.

Ákveðnir fyrirvarar og ekki gert ráð fyrir landflutningum

Útreikningar Eflu miðast við upplýsingar frá birgjum Ölgerðarinnar, það eru margar breytur sem skipta máli og málum ekki eins háttað hjá öllum birgjum. Alexandra segir niðurstöðurnar byggðar á bestu tiltæku gögnum en að það þurfi samt að taka þeim með ákveðnum fyrirvara, þær komi þó ekkert á óvart, séu í samræmi við það sem hún bjóst við. Þá bendir hún á að í útreikningunum sé ekki gert ráð fyrir landflutningum, oft séu drykkirnir keyrðir mörg hundruð kílómetra frá framleiðslustað að höfn, vörubílaflutningarnir vegi oft þyngra en sjóflutningarnir. Útreikningarnir taki ekki heldur til orkunotkunar við átöppun ytra - munurinn sé því líklega enn meiri. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV