Rúmlega sex lítrar á mánuði
Í innflutningsskrá Hagstofunnar er hægt að skoða innflutning á drykkjum eftir tollskrárnúmerum, mánuð fyrir mánuð. Spegillinn skoðaði innflutning á kolsýrðu vatni, gosdrykkjum með og án sykurs, ýmsu bragðbættu vatni og óáfengu öli. Nokkrir tugir tollskrárnúmera voru undir. Í janúar 2017 voru flutt inn 552 þúsund kíló af þessum drykkjum sem samanstanda að stærstum hluta af vatni. Í júlí síðastliðnum hafði magnið fjórfaldast, var komið upp í 2,27 milljónir kílóa. Þetta þýðir að í janúar árið 2017 var flutt inn sem nemur um einum og hálfum lítra af gosi og bragðbættu vatni fyrir hvert mannsbarn á landinu, í júlí á þessu ári voru lítrarnir á hvern Íslending orðnir 6,3 á mánuði. Meginuppistaðan í þessu eru gosdrykkir í einnota áldósum.
Drykkirnir koma víða að
Innflutningur frá Austurríki, Hollandi, Sviss, Þýskalandi, Bretlandi og Danmörku hefur aukist verulega frá því í byrjun árs 2017 en ekkert land kemst þó með tærnar þar sem Svíþjóð hefur hælana. Í janúar 2017 komu tæplega 25 tonn af áldósum siglandi frá Svíaríki, í júlí 2019 voru tonnin 719, tæplega þrjátíu sinnum fleiri. Það er líka nokkuð aukinn innflutningur á drykkjum í glerflöskum en innflutningur á drykkjum í plastflöskum hefur ekki aukist jafn mikið.