Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sporna við lyfjamisnotkun ungmenna

01.09.2019 - 16:05
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhann Bjarni Kolbeinsson - Aðsend mynd
Fræðsluátak samtakanna Eitt líf hefst í dag. Með átakinu á að sporna við misnotkun barna og unglinga á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum. Þrjátíu og níu létust vegna ofneyslu lyfja á síðasta ári.

Á allra vörum styður Eitt líf

Átakið Eitt líf var stofnað fyrir rúmu ári í kjölfar þess að Einar Darri Óskarsson var bráðkvaddur á heimili sínu vegna lyfjaeitrunar, aðeins átján ára að aldri. Hann hafði tekið of stóran lyfjaskammt af lyfseðilsskyldum lyfjum. 

Í ár nýtur átakið Eitt líf stuðnings samtakanna Á allra vöru og ágóða söfnunar samtakanna. Elísabet Sveinsdóttir, Gróa Ásgeirsdóttir og Guðný Pálsdóttir stofnuðu Á allra vörum árið 2008. Markmið þeirra er að koma þörfum málefnum á framfæri á kraftmikinn og eftirtektarverðan hátt, segir í tilkynningu frá samtökunum. Þetta er níunda átak Á allra vörum. Síðast studdu samtökin Kvennaathvarfið árið 2017.

Vænlegra til árangurs að ná til ungmenna

Í tilkynningunni segir að könnun á vegum fyrirtækisins Rannsókn og greining hafi leitt í ljós að um ellefu prósent framhaldsskólanema, átján ára og eldri, hefðu notað morfínskyld verkjalyf án lyfseðils, einu sinni eða oftar um ævina. Þá bendi könnun sem Lyfjastofnun gerði í fyrra til þess að um tuttugu prósent háskólanema noti örvandi lyf til að bæta námsárangur og draga úr svefnþörf. 

Í skýrslu um átakið kemur fram að það sé talið vænlegast til árangurs að ná til ungmenna áður en þau prófi fíkniefni. Því sé markhópur átaksins grunnskólanemendur í 7. til 10. bekk, ásamt foreldrum og kennurum barnanna.

Stærsta forvarnarverkefnið hingað til 

Í tilkynningu frá Á allra vörum kemur fram að átakið sé stærsta forvarnarverkefni sem ráðist hefur verið í hér á landi. Eitt líf vinni óhefðbundið forvarnarstarf í grunnskólum landsins. Markmið herferðarinnar sé að vekja þjóðina, tala tæpitungulaust um þessi mál og koma með tillögur að lausn á vandamálinu. 

Á allra vörum kynntu átakið fyrir áhugasömum á fjórða tímanum í dag í Hallgrímskirkju.

Fréttin hefur verið uppfærð.