Spíttskáldin og strætóskáldin

Mynd: RÚV/Samsett mynd / Facebook

Spíttskáldin og strætóskáldin

18.07.2018 - 16:04

Höfundar

Síðastliðið haust urðu þau tíðindi að tvær mismunandi stefnur og fylkingar voru skilgreindar meðal íslenskra ungljóðskálda; spíttljóð og strætóljóð. Ljóðskáldin Brynjar Jóhannesson og Brynja Hjálmsdóttir ræddu þessar vendingar í Hve glötuð er vor æska, bókmenntaþætti RÚV núll.

Í grunninn mætti segja að „strætóljóðlist“ sé pen, falleg og mínímalísk með vísanir í sálina, ástina og náttúruna. „Spíttljóðin“ eru hins vegar hrá og óhefluð, uppfull af öskrum, pönki, dópi og líkamsvessum. „Mér finnst þægilegast að hugsa um þetta sem hvísl og öskur, pent og ókurteist,“ segir Brynjar Jóhannesson. Stefnurnar voru fyrst nefndar í deilum á netinu um ritdóm ljóðskáldsins Braga Páls Ásgeirssonar um bókina Skýjafar eftir Jónu Kristjönu Hólmgeirsdóttur. Braga þótti heldur lítið til bókarinnar koma og líkti henni við það að fylgjast með einhverjum öðrum bíða eftir strætó – vera ekki einu sinni að bíða sjálfur. „Hann kallaði eftir meiri öskrum og krafti, sem var svo sem öðruvísi fagurfræði en Jóna var að skrifa inn í,“ segir Brynjar.

Skáldið Fríða Ísberg gagnrýndi Braga og vitnaði sérstaklega til ákalls hans um meira gubb og grát í miðbæ Reykjavíkur í ástarsorgarljóðunum. Þar sagði hún þessa „spíttljóðlist“ sem hann óskaði eftir geta verið alveg jafn lítilsverða – ef ekki meira – heldur en strætóljóðin sem hann talaði um. „Eftir þetta myndaðist fjörleg umræða og upp voru dregnar þessar óljósu fylkingar sem má efast um að hafi verið til áður en þessi orð voru sögð,“ segir Brynjar.

„Já ef við gerum ráð fyrir að það séu þessar tvær fylkingar þá geta strætóljóð og spíttljóð bæði verið leiðinleg, en líka bæði verið góð,“ segir Brynja Hjálmsdóttir. „En það var hiti í fólki í þessari umræðu, og frekar gaman að sjá fólk brenna svona fyrir ljóðlistinni.“ Brynjar tekur undir þetta, segir umræðuna hafa verið frjóa og spennandi um fyrirbæri sem lítið hafði verið deilt um að undanförnu. „Sérstaklega ekki á þennan hátt, hreint og beint um mismunandi fagurfræði.“

Brynja segist ekki sannfærð um að önnur týpan sé betri en hin. „Og ef einhver samsvarar sig öðru hvorum megin, þá réttlætir það ekki að fyrilíta hina tegundina. Ljóð er ekki geiri. Það er heil bókmenntagrein og það er rosalega vítt rými og mikið af ólíkum leiðum að fara.“ Þau velta fyrir sér hvort hægt væri að fara í gegnum söguna og greina skáld á ólíkum tímum í þessa tvo flokka. En hvar skyldu þau sjálf vera? „Ég vil eftirláta öðrum að greina hvernig skáld ég er,“ segir Brynja. „Ég myndi setja mig spítt-megin,“ segir Brynjar. „Til dæmis bara á síðasta ári þegar ég gaf út eina bók í hverjum mánuði, það fylgir því mikill hráleiki.“

Þorvaldur Sigurbjörn Helgason ræddi við ungskáldin Brynju Hjálmsdóttur og Brynjar Jóhannesson í öðrum þætti Hve glötuð er vor æska? á RÚV núll. Hægt er að hlusta á þáttinn, sem er helgaður ungskáldum, í spilaranum.

Tengdar fréttir

Pistlar

Hrein þekking á 15 mínútum?

Bókmenntir

Bóksalar velja sínar eftirlætis bækur

Bókmenntir

Gefur út ljóðabók í hverjum mánuði

Bókmenntir

Brynjar vann Ljóðaslamm