Vorið 2012 klifraði Justin Trudeau inn í hnefaleikahringinn í höfuðborginni Ottawa, staðráðinn í að umbreyta ímynd sinni. Hann var rauðklæddur frá toppi til táar, einkennislit Frjálslynda flokksins enda tiltölulega nýkjörinn þingmaður flokksins. Andstæðingurinn var Patrick Brazeau, öldungadeildarþingmaður Íhaldsflokksins, að sjálfsögðu bláklæddur. Brazeau var úr sjóhernum með svarta beltið í karate. Trudeau var grannvaxinn, fyrrum grunnskólakennari. Sigurlíkur hans voru einn á móti þremur. Bardaginn var liður í söfnun fyrir krabbameinsrannsóknir og sýndur beint í sjónvarpinu. Þetta varð mikil skrautsýning og enginn skortur á táknmyndum. Íhaldsflokkurinn hafði barið á Frjálslyndaflokknum um langt skeið en Frjálslyndi flokkurinn hafði áður stýrt landinu lungann úr tuttugustu öldinni. Nýi tíminn gegn þeim gamla - eða öfugt. Rautt gegn bláu. Davíð á móti Golíat.

Spillingarmál skaðar ímynd Trudeau
Þrátt fyrir ungan aldur var Justin Trudeau vonarstjarna innan Frjálslynda flokksins, ungur og glæsilegur. Hann var hins vegar léttvægur fundinn og baðaði sig í ljóma föður síns, Pierre Trudeau sem lengi var forsætisráðherra og leiðtogi Frjálslynda flokksins. Barbra Streisand, fyrrum ástkona pabbans lýsti honum sem blöndu af Marlon Brando og Napoleon. Strákurinn var hins vegar kallaður Paris Hilton kanadískra stjórnmála. Bardaginn var stóra tækifærið til að breyta ímynd Justins Trudeau. Aldrei að vanmeta mátt táknmynda í nútímastjórnmálum sagði hann sjálfur við tökuliðið á staðnum.
Þetta varð að mörgu leyti eins og Rumble in the Jungle, þegar Muhammad Ali sigraði tröllið George Forman. Brazeau byrjaði vel í fyrstu lotu og lét höggin dynja á Trudeau sem hálfhékk í köðlunum. Öldungadeildarþingmaðurinn kláraði orkuna í þessari fyrstu lotu og Trudeau lék á als oddi í annari lotu. Í þriðju lotu stöðvaði dómarinn bardagann og lýsti Trudeau sigurvegara. Ímynd Trudeaus tók stakkaskiptum. Hann var ekki lengur léttvigtarmaður í stjórnmálum. Hann var orðinn þungavigtar á einni nóttu. Í viðtali við tímaritið Rolling Stones sagði Trudeau að andstæðingurinn hefði verið vandlega valinn. Þetta varð að vera góð saga, full af mikilvægum táknmyndum. Trudeau var ekki lengur léttvægur pabbadrengur í fjölmiðlum. Seigla, styrkur, heiður og hugrekki voru nú lýsingarorð fjölmiðla. Ári síðar var hann valinn formaður Frjálslynda flokksins og tveimur árum síðar var hann orðinn forsætisráðherra Kanada, eins og faðir hans áður. Fjálslyndi flokkurinn fór frá því að vera þriðji stærsti flokkur landsins í að vera sá stærsti. Aldrei í sögu Kanada hafði nokkur flokkur bætt við sig viðlíka fylgi. Justin Trudeau var maðurinn. Fyrsti Instagram-forsætisráðherrann sögðu sumir.
Í The Long Read eða Langa lestrinum í Guardian segir að Trudeau hafi byggt upp ímyndina um hið frjálslynda Kanada, vingjarnlega þjóð sem tekur innflytjendum opnum örmum og er réttlátt í garð þegna sinna. Fyrirmynd framfara og fjárslyndis á tímum einræðishneigðar og popúlisma. Trump var öðru megin landamæranna, Trudeau hinu megin. Trudeau þjónaði þegnunum sem dáðu og dýrkuðu sinn mann. En það hefur fallið á silfrið í seinni tíð, einkum í tengslum við spillingarmál risavaxins verktakafyrirtækis. Siðanefnd þingsins úrskurðaði á dögunum að Trudeau hafi farið á svig við siðareglur og lög þegar hann reyndi að koma í veg fyrir að fyrirtækið yrði lögsótt fyrir mútur, einkum til háttsettra embættismanna í stjórn Gaddafis í Líbíu á árunum 2001 til 2011. Leyndarhyggjan og samtryggingin eru þvert á það opna frjálslynda samfélag sem hann boðaði. Vinsældir Justin Trudeau hafa hrunið, mældust sextíu og fimm prósent árið 2016 en nú aðeins þrjátíu og tvö prósent.
Justin Trudeau fór með himinskautum á hveitibrauðsdögum ríkisstjórnarinnar. Allt sem þetta hálfkonungborna frægðarmenni snerti varð að gulli á samfélagsmiðlunum. Her manna skipuleggur tilsvörin, dagskrána og réttu augnablikin fyrir myndavélarnar. Konur voru jafnmargar körlum í ríkisstjórn. Ríkisstjórnaskipti sem alltaf hafa verið formleg og leiðinleg urðu að vel hannaðri atburðarrás í beinni útsendingu. Justin Trudeau og kona hans voru í forsíðuviðtölum hjá New York Times, Vogue og Rolling Stones. Trudeau var meðal jafningja á fundum leiðtoga heims. Hann knúsaði pöndur, tók fagnandi á móti sýrlenskum flóttamönnum og æfði hnefaleika fyrir framan myndavélarnar. Donald Trump var þekktur fyrir sérkennilega og leikræna tilburði þegar hann heilsaði þjóðarleiðtogum með handabandi. Trudeau og menn hans æfðu sig stíft fyrir væntanlegt handaband, þétt með góðu gripi um öxlina. Það þótti takast vel og myndir af handabandinu fór víða. Þegar fjölmiðlar fóru hamförum vegna ópíóíðafaraldurs fór Trudeau út að skokka og var myndaður í bak og fyrir með glaðlegum hópi ungra nemenda á leið á lokaball.
Oft hefur ímyndarhönnunin þótt ganga of langt. Í opinberri heimsókn til Indlands á síðasta ári þótti meira fara fyrir honum í þjóðbúningum og léttvægum myndrænum tilþrifum en raunverulegum viðræðum við helstu ráðamenn stærsta lýðræðisríkis veraldar. Umbúðir á kostnað innihalds segja gagnrýnendur hans. Spillingarmál verktakafyrirtækisins hafa þó farið verst með Trudeau. Siðanefnd þingsins segir að hann hafi reynt að þvinga dómsmálaráðherra til að koma í veg fyrir ákæru af ótta við að stórfyrirtækið flytti höfuðstöðvar sínar og þar með mörg þúsund störf. Trudeau hafi í raun hugsað meira um endurkjör en eðlilegan framgang réttvísinnar. Siðanefndin sakar Trudeau um að sniðganga dómsmálaráðherrann, grafa undan honum og gera tortryggilegan. Sjálf sakar hún hann um kvenhatur. Utanríkisráðherra hans til fjórtán mánaða fékk aldrei einkafund með Trudeau, þrátt fyrir ítrekaðar óskir. Hann er sakaður um miðstýringu og klíkustjórnun. Það er ljóst að Trudeau er í ólgusjó og vinsældir hans hafa aldrei mælst minni. Það kemur í ljós í kosningunum í október hvort ímynd hans hefur laskast tímabundið eða varanlega.