Spike Lee bætir fyrir 30 ára gömul mistök

Mynd: Netflix / Netflix

Spike Lee bætir fyrir 30 ára gömul mistök

30.11.2017 - 10:09

Höfundar

Leikstjórinn Spike Lee frumsýndi á fimmtudag nýja sjónvarpsþáttaröð á efnisveitunni Netflix. Þessi tíu þátta röð er um margt merkileg en kannski helst fyrir þær sakir að hún er endurgerð á fyrstu kvikmynd leikstjórans, She‘s Gotta Have It, frá 1986.

Það er ekki á hverjum degi sem Hollywood-leikstjórar endurgera eigin kvikmyndir rúmum þrjátíu árum síðar en í þessu tilfelli skiptir öllu máli að þessi 84 mínútna kvikmynd er orðin að tíu þátta röð, og ríflega 300 mínútum.  

She‘s Gotta Have It segir frá myndlistakonunni Nola Darling, ungri svartri konu búsettri í Brooklyn í New York, sem lýsir sjálfri sér sem kynfrjálsri, fjölkærri og pankynhneigðri. Með öðrum orðum: Nola Darling lifir miklu og frjálslegu kynlífi, með fjórum mismunandi elskhugum af tveimur kynjum. Þremur körlum og einni konu. En samt bara einu þeirra í einu.

Endurgerð She‘s Gotta Have It byggir á þessu sama grunnstefi og kvikmyndin sem var mjög framúrstefnuleg á sínum tíma. Þó það sé enn litið hornauga að eiga í ástarsambandi við fleiri en einn einstakling í einu, og Nola Darling fær sannarlega að finna fyrir því, má ætla að kynfrelsi svartra kvenna í Bandaríkjunum hafi verið enn takmarkaðra á níunda áratugnum en það er í dag. Byltingarnar hafa verið svo margar síðan þá.

Byltingarkennd frumraun

Frumraun Spike Lee á kvikmynd í fullri lengd skaut leikstjóranum upp á stjörnuhimininn og það algjörlega óvænt. Hún var keyrð áfram á algjörum lágmarkskostnaði, meðal annars fjármögnuð af ömmu leikstjórans, tekin upp í svarthvítu á einungis tólf dögum. En það var byltingarkennd rödd Nolu Darling sem braust í gegnum glerþak Hollywood. Svört kona hafði ekki hagað sér eins og karlmaður á hvíta tjaldinu áður.

Og sú rödd er í raun enn byltingarkennd í dag. Það er ögrandi, jafnvel stuðandi, að sjá Nolu Darling ársins 2017 hafna því alfarið þegar elskhugar hennar reyna að temja hana og slá eignarhaldi sínu á hana. Meginstefið er kannski í raun eignarhald karla yfir konum. Í nánum ástarsamböndum sem og opinberum rýmum. Það er stóra álitamálið í She‘s Gotta Have It.

One sheet movie poster advertises 'She's Gotta Have it' (Island Pictures), directed by Spike Lee and starring Tracy Camilla Johns, Tommy Redmond Hicks, John Canada Terrell, Joie Lee, and S. Epatha Merkerson, 1986. (Photo by John D. Kisch
Veggspjald kvikmyndarinnar frá 1986

Þessir eignarhaldsflækja verður skýrust þegar Nola Darling verður fyrir árás ágengs manns á götu úti, manns sem byrjar á að kalla á eftir henni klúrar athugasemdir en rífur svo í hana þegar hún hafnar honum. Veruleiki sem konur í flestum stórborgum heims þurfa að lifa með í dag. Lögleg óttavekjandi áreitni.

Eftir árásina kaupir Nola sér stuttan svartan kjól. Eins og til að minna sig á eigið eignarhald yfir líkama sínum. Að það var ekki klæðnaði hennar um að kenna að maðurinn skyldi ráðast á hana.

Kjólakaupin eru óskynsamleg fjárhagslega en eiga að vera henni valdeflandi. Alveg þar til hún fer á stefnumót með elskhugunum. Sá fyrsti reynir stöðugt að hylja hana með jakkanum sínum, spenntur yfir kjólnum en ekki áfram um að aðrir sjái hana klæðast honum. Hinir elskhugarnir fá kjólinn á heilann, láta stefnumótin snúast um kjólinn og gera hann að aðalumtalsefni kvöldsins. Undirliggjandi er sú skoðun mannanna að með kjólnum sé hún að sýnast karlmönnum, þeim sjálfum sem og öðrum í kring.

Kjóllinn verður einhvern veginn táknrænn fyrir það eignarhald sem elskhugar Nolu vilja hafa á henni og hún sættir sig ekki við. Alveg eins og hún sættir sig ekki við að vera trygg einu þeirra í einu. Hún fer aldrei aftur í kjólinn.

Mistök kæfðu byltingarkennda rödd Nolu Darling

Við gerð kvikmyndarinnar She‘s Gotta Have It, árið 1986, gerði Spike Lee mistök. Það er merkilegt að við gerð nýju þáttaraðarinnar er ásetningur hans um að bæta fyrir þessi mistök afdráttarlaus. Spike fékk í raun sjaldséð tækifæri til að endurskapa það sem hann sá mest eftir við gerð She‘s Gotta Have It og greip það.

Mistökin fólust í því að einn elskhugi hennar nauðgar Nolu Darling þegar hann snöggreiðist henni fyrir að spila með sig. Atriðið er allt í senn óhugnanlegt, illskiljanlegt og afkáralegt. Viðbrögð Nolu Darling í kjölfarið eru það líka. Þvert á persónu hennar í kvikmyndinni ákveður hún að taka upp skammlíft skírlífi og hefur svo samband með ofbeldismanninum. Áhorfendur fá það á tilfinninguna að kynferðisofbeldið hafi loksins tamið þessa hömlulausu dræsu. 

Spike Lee hefur sjálfur verið hreinskilinn varðandi þessi mistök lengi. Í viðtali árið 2014 sagði hann að nauðgunaratriðið yrði leiðrétt fengi hann tækifæri til. Með því hafi hann óviljandi gefið í skyn að nauðgun væri léttvæg. Staðreyndin væri sú að hann hefði ekki litið á kynferðisofbeldi jafn alvarlegum augum og hann gerir í dag. Og það stendur heima, ofbeldisatriðið er hvergi sjáanlegt í nýju þáttunum. 
 

Í viðtali á dögunum kom Lee aftur inn á þá vankanta sem voru á kvikmyndinni. Hann segist hafa verið ungur, ógiftur og barnlaus og hafi hreinlega skort innsýn inn í líf kvenna og skilning. Í þetta skiptið eru fimm konur í teymi handritshöfunda og eiginkona Lees er meðframleiðandi þáttanna. 

Spike Lee ætlaði ekki að gera þau mistök aftur að Nola Darling, þessi byltingarkenndi karakter, væri skrifuð of mikið út frá sjónarhorni karlmannsins. Nola Darling er miklu sterkari árið 2017 en hún var árið 1986.

Frelsi kvenna nú aðalatriðið

Það eru fleiri áhugaverð álitamál í þáttunum sem ekki eru jafn ríkulega til staðar í kvikmyndinni. Vinkonu Nolu langar að gangast undir aðgerð til að fá stærri rass. Gígantískan rass raunar. Upp vaknar sú spurning hvort sé öflugri femínismi; að láta ekki undan útlitskröfum poppkúltúrsins með fótósjoppuðum afturendum og örgrönnum mittum sem draga línur hinnar fullkomnu konu í dag, eða er það réttari femínismi að vinkonunni sé frjálst að gangast undir rassstækkunina í krafti þess að konur megi gera það sem þeim sýnist við líkama sinn.

Aftur verður stóra álitamálið þetta eignarhald. Hver á okkur og hvenær vitum við hvort við eigum okkur raunverulega sjálfar? Er konum treystandi til að dæma um það?

Endurgerð She‘s Gotta Have It er ótrúlega tímasett inn í miðja #metoo byltinguna. Þar sem konur um allan heim endurheimta eignarhald sitt yfir líkömum sínum í opinberu rými, vinnustöðum og heima fyrir eftir það sem virðist vera kerfsibundin kynferðisleg áreitni frá körlum. Og enn einu sinni neglir Spike Lee teiknibóluna í afturenda samtímans. Það er hiklaust hægt að mæla með She‘s Gotta Have It ársins 2017.