Þessir eignarhaldsflækja verður skýrust þegar Nola Darling verður fyrir árás ágengs manns á götu úti, manns sem byrjar á að kalla á eftir henni klúrar athugasemdir en rífur svo í hana þegar hún hafnar honum. Veruleiki sem konur í flestum stórborgum heims þurfa að lifa með í dag. Lögleg óttavekjandi áreitni.
Eftir árásina kaupir Nola sér stuttan svartan kjól. Eins og til að minna sig á eigið eignarhald yfir líkama sínum. Að það var ekki klæðnaði hennar um að kenna að maðurinn skyldi ráðast á hana.
Kjólakaupin eru óskynsamleg fjárhagslega en eiga að vera henni valdeflandi. Alveg þar til hún fer á stefnumót með elskhugunum. Sá fyrsti reynir stöðugt að hylja hana með jakkanum sínum, spenntur yfir kjólnum en ekki áfram um að aðrir sjái hana klæðast honum. Hinir elskhugarnir fá kjólinn á heilann, láta stefnumótin snúast um kjólinn og gera hann að aðalumtalsefni kvöldsins. Undirliggjandi er sú skoðun mannanna að með kjólnum sé hún að sýnast karlmönnum, þeim sjálfum sem og öðrum í kring.
Kjóllinn verður einhvern veginn táknrænn fyrir það eignarhald sem elskhugar Nolu vilja hafa á henni og hún sættir sig ekki við. Alveg eins og hún sættir sig ekki við að vera trygg einu þeirra í einu. Hún fer aldrei aftur í kjólinn.
Mistök kæfðu byltingarkennda rödd Nolu Darling
Við gerð kvikmyndarinnar She‘s Gotta Have It, árið 1986, gerði Spike Lee mistök. Það er merkilegt að við gerð nýju þáttaraðarinnar er ásetningur hans um að bæta fyrir þessi mistök afdráttarlaus. Spike fékk í raun sjaldséð tækifæri til að endurskapa það sem hann sá mest eftir við gerð She‘s Gotta Have It og greip það.
Mistökin fólust í því að einn elskhugi hennar nauðgar Nolu Darling þegar hann snöggreiðist henni fyrir að spila með sig. Atriðið er allt í senn óhugnanlegt, illskiljanlegt og afkáralegt. Viðbrögð Nolu Darling í kjölfarið eru það líka. Þvert á persónu hennar í kvikmyndinni ákveður hún að taka upp skammlíft skírlífi og hefur svo samband með ofbeldismanninum. Áhorfendur fá það á tilfinninguna að kynferðisofbeldið hafi loksins tamið þessa hömlulausu dræsu.
Spike Lee hefur sjálfur verið hreinskilinn varðandi þessi mistök lengi. Í viðtali árið 2014 sagði hann að nauðgunaratriðið yrði leiðrétt fengi hann tækifæri til. Með því hafi hann óviljandi gefið í skyn að nauðgun væri léttvæg. Staðreyndin væri sú að hann hefði ekki litið á kynferðisofbeldi jafn alvarlegum augum og hann gerir í dag. Og það stendur heima, ofbeldisatriðið er hvergi sjáanlegt í nýju þáttunum.