Spenntur á taugum með skýra stefnu

Mynd: RÚV / RÚV

Spenntur á taugum með skýra stefnu

31.10.2019 - 12:34

Höfundar

Blaðamaður, leikari, útvarpsmaður, rappari, uppistandari, starfsmaður á auglýsingastofu, aðstoðarleikstjóri, handritshöfundur, ljóðskáld, dramatúrg, smiður og vínkaupmaður. Þetta eru störfin sem Halldór Laxness Halldórsson hefur sinnt gegnum tíðina. Í augnablikinu sinnir hann tveimur stórum verkefnum, gefur út sína fyrstu skáldsögu, Kokkál, og skrifar leikgerð nýrrar uppfærslu Atómstöðvarinnar í Þjóðleikhúsinu sem frumsýnd verður 1. nóvember.

Halldór er barnabarn Halldórs og Auðar Laxness. Hann varði stórum hluta æsku sinnar á Gljúfrasteini og á þaðan góðar minningar. 

„Þetta eru bara amma og afi sko. Ég er alinn upp í þessu húsi að miklu leyti og eyddi hverjum einasta degi barnæsku minnar hér. Ég var rosalegt ömmubarn, afi náttúrulega er farinn að kalka þarna vel upp úr '90, kannski svona '93, '94 var farið að harðna aðeins á því. Þó svo að ég kynnist honum þá var hann gamall þegar ég fæðist.“

Laxnessnafnið eins og derhúfa

Aðspurður hvaða áhrif skyldleikinn við Nóbelsskáldið hafi haft á hann segir hann þau takmörkuð. „Hvað þessi tilteknu vensl gera fyrir mann sem er innan sama bransa - veistu, ég hef ekki alveg skoðun á því nema ég sé einmitt spurður og hún sé þvinguð fram. Ég myndi halda að fyrir kynslóð móður minnar hafi verið miklu erfiðara að vera með þetta Laxness-nafn, á meðan ég get nánast haft það eins og derhúfu og sett það á og tekið það af þegar ég vil.“

Það er flókið mál að festa eitt starfsheiti við Halldór. Lengi framan af notaðist hann sjálfur við titilinn grínisti en það hefur breyst. „En ætli ég sé ekki mest bara höfundur, í allri sinni mynd og svo hef ég ýmis áhugamál sem leiða mig eitthvert annað.“

Aldrei einlæg

Halldór hefur gefið út tvær ljóðabækur, Órar, martraðir og hlutir sem ég hugsa um þegar ég er að keyra og Andvirði hundrað milljónir. Kokkáll er hans fyrsta skáldsaga, en hún fjallar um Örn, starfsmann á auglýsingastofu sem býður kærustunni sinni, Hrafnhildi, í helgarferð til Chicago. Þar kynnast þau hinum hörundsdökka og stimamjúka Tyrone og óvænt atburðarás upphefst. „Það er bara ein persóna í bókinni sem þorir að vera hún sjálf og er bara hún sjálf. Allir aðrir eru sífellt að máta sig í einhverjum hlutverkum og í sumum hlutverkum eru þeir óöruggir en keyra áfram, í öðrum hlutverkum líður þeim betur og þeir taka upp þessa grímu og hina grímuna og þeir eru aldrei einlægir, þeir eru alltaf eitthvað sem þeir ákváðu að vera af því að það hentaði þeim þarna, sem mér finnst einkenna nútímann mjög mikið,“ segir Halldór. 

Má sigta, bannað að breyta

Halldór samdi leikgerð nýrrar uppfærslu á Atómstöðinni sem ber undirtitillinn Endurlit, í samstarfi við Unu Þorleifsdóttur leikstjóra en verkið verður frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins 1. nóvember. 

Hann tók afgerandi afstöðu í meðförum á texta afa síns. „Ég breyti honum ekki. Það má veiða það besta út og skera fituna í burtu og það er hættulegt að taka leiktexta og færa hann beint inn á svið. En það er bara verkefni fyrir leikara og það er verkefni fyrir leikstjóra og náttúrulega leikskáld.“

„Og veistu hvað, ég er auðvitað skítstressaður, ekki við viðbrögðin, ég er bara stressaður að einhverjum finnist ég hafa saurgað minningu afa míns innan fjölskyldunnar. Ég er ekki að því, bara alls ekki. Ég tók skýra stefnu um að segja söguna eins og hún er.“

Nánari upplýsingar um bók Halldórs, Kokkál, má finna hér
Nánari upplýsingar um Atómstöðina - endurlit má finna hér
 

 

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Bókin er fyrst og fremst um karlmennskuna“

Bókmenntir

Lífið finnur leið til að láta okkur líða illa

Menningarefni

Dóri DNA reynir fyrir sér í LARP-i

Tónlist

Helgaruppskriftin: Djúpsteikt frá Dóra DNA