Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Spennandi og tilfinningarík Blóðug jörð

Mynd: Forlagið / Forlagið

Spennandi og tilfinningarík Blóðug jörð

23.11.2017 - 16:41

Höfundar

„Þrátt fyrir að fyrstu blaðsíður bókarinnar geti reynst hægar og erfiðar aflestrar er Blóðug jörð spennandi bók, sem er vel af sér vikið því lesandinn veit hvernig sagan endar, flestir vita jú að Auður djúpúðga nam land í Hvammsfirði.“ Andri M. Kristjánsson rýnir í Blóðuga jörð Vilborgar Davíðsdóttur.

Andri M. Kristjánsson skrifar:

Blóðug jörð eftir Vilborgu Davíðsdóttur er þriðja og síðasta bókin í þríleik Vilborgar um landnámskonuna Auði djúpúðgu Ketilsdóttur. Blóðug jörð er sjálfstætt framhald af bókunum Auður sem kom út árið 2009 og Vígroða sem kom út árið 2012. Í Blóðugri jörð er sjónum ekki beint að uppvexti og lífi Auðar á yngri árum líkt og í fyrri bókunum, umfjöllunarefnið að þessu sinni eru þeir atburðir sem valda því að Auður sér sig knúna að pakka lífi sínu og barnabarna sinni niður og hefja stórhættulegt ferðalag frá Skotlandi til Íslands. Í framhaldinu er sagt frá ferðalaginu sjálfu sem ber Auði og hennar fólk til Orkneyja, Færeyja og að lokum til Íslands, þar sem frekari vandræði bíða þeirra. Með öðrum orðum er fjallað á skáldlegan hátt um landnám eins af okkar þekktasta og virtasta landnema.

Í upphafi sögunnar er sagt frá dauða Ólafs hvíta árið 874 en það sem á eftir fer á sér stað sumrin 883 og 884. Frásögn sögunnar er að mestu leyti miðlað til lesandans í gegnum sjónarhorn Auðar en þó eftir því sem líða tekur á söguna fjölgar þeim sem miðla sögunni til lesandans. Auður sem aðalpersóna bókarinnar er miðdepill frásagnarinnar þegar flóknar fléttur og samningar við höfðingja eru í forgrunni, þó má greinilega finna í frásögninni staði þar sem greint er frá gleði, ótta, sjálfsefa og fleiri tilfinningum Auðar á mjög einlægan máta. Í gegnum Auði fær lesandinn aðgang að óttanum og háskanum sem er allt umlykjandi á ferðalagi fólksins til Íslands, allt frá upphafi til enda. Í mótvægi við þennan ótta kemur sjónarhorn Gróu Þorsteinsdóttur rauðs, sonardóttur Auðar.

Gróa er á þeim aldri í samfélagi miðalda að hún er að slíta barnsskónum og taka fyrstu skrefin inn í fullorðinsárin. Í gegnum sjónarhorn Gróu er því lýst hvernig ung stúlka kemst smám saman að því hvað það þýðir í raun og veru að vera kona í samfélagi norrænna manna á miðöldum. Sakleysi barnsáranna hverfur smátt og smátt í frásögninni og fyrr en varir þarf Gróa að sætta sig við þau örlög að þurfa að vera gefin ókunnugum manni og að skilja við fjölskyldu sína til þess að friður haldist á Katanesi á Skotlandi. Í frásögnum þar sem nútímalesandinn mætir fornum siðum og venjum er einstaklega auðvelt að falla í þá gryfju að dæma aftur í tímann, þá er átt við að varpa nútímahugmyndum og gildum aftur í tímann á persónur sem deila ekki sama gildismati og lesandinn. Höfundur kemst blessunarlega hjá því að falla í gildruna en samt sem áður má greinilega finna að samúð lesandans á að vera hjá Gróu. Þessi leikur með gildi samfélagsins á miðöldum og í samtímanum heppnast ágætlega og sjónarhorn Gróu gefur lesandanum tækifæri til að skilja hlutskipti hennar en á sama tíma finna til með henni.

Sjónarhorn kvenna er mikilvægt í bókinni, Auður er sú persóna sem lesandinn hefur mestan aðgang að en miklum meirihluta bókarinnar er miðlað í gegnum sjónarhorn kvenna, hvort sem það er Auður eða tvíburasysturnar Gróa og Ólöf. Það vekur þó athygli að eftir því sem frásögninni vindur fram fækkar konunum sem miðla frásögninni. Í fyrsta hluta sögunnar skiptist sjónarhornið milli Auðar og Gróu en eftir að Gróa er gift og skilin eftir á Skotlandi tekur Ólöf við sem fulltrúi yngri kynslóðarinnar en hún, líkt og systir hennar, hverfur úr sögunni þegar hún er gift í Færeyjum. Eftir því sem ferðalangarnir færast nær Íslandi því minna vægi fær hlutur kvenna í frásögninni, um leið og komið er til Íslands verður greinilegur munur á því hvernig sögunni er miðlað, í fyrsta skiptið kemur sjónarhorn karlmanns í sögunni. Hvort í þeirri staðreynd felist dómur um að samfélag Íslands á miðöldum hafi verið karllægara en annars staðar í Evrópu skal látið liggja á milli hluta.

Þrátt fyrir að fyrstu blaðsíður bókarinnar geti reynst hægar og erfiðar aflestrar er Blóðug jörð er spennandi bók, sem er vel af sér vikið því lesandinn veit hvernig sagan endar, flestir vita jú að Auður djúpúðga nam land í Hvammsfirði. Spennan í bókinni tengist því ekki hvort að persónurnar nái takmarki sínu heldur hvernig þær ná því. Persónusköpunin er því einn helsti styrkur bókarinnar, persónur eru vel gerðar og það er ekki síst tilfinningaleg dýpt þeirra sem vekur áhuga lesandans og heldur honum föstum við lestur bókarinnar.

Ferðalagið sjálft vekur upp forvitnilega upplifun hjá lesandanum sem vert er að nefna, þegar Auður og hennar fólk kemur loksins til Íslands upplifir lesandinn að hann sé kominn á kunnuglegar slóðir, örnefnin, landslagið og landnámsfólkið, allt þetta hringir kunnuglegum bjöllum í huga lesandans. Frásagnir af landnámi Ingólfs Arnarsonar og Hjörleifs fóstbróður hans fléttast saman við frásögnina í Blóðugri jörð og veita lesandanum þá tilfinningu að hann sé loksins kominn heim eftir langa dvöl erlendis. Þetta er áhugaverð upplifun vegna þess að hún er í algjöri mótsögn við upplifun persóna bókarinnar sem koma að ströndum framandi lands sem er óralangt í burtu frá heimkynnum þeirra. Þessar andstæður í upplifun lesandans og upplifun persóna undirstrikar þá staðreynd að Auður djúpúðga Ketilsdóttir er útlendingur á Íslandi líkt og allir landnámsmenn sem settust hér að. Það sem meira er Auður er í raun og veru flóttamaður sem flúði heimalandið vegna stríðsátaka, flúði til Íslands í leit að betra lífi fyrir sig og fjölskyldu sína.