Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Spennandi kosningar á Grænlandi

24.04.2018 - 18:40
Mynd: TV2 í Danmörku / TV2DK
Grænlendingar ganga að kjörborðinu í dag og litlu munar á fylgi stærstu flokkanna tveggja samkvæmt skoðanakönnunum. Stjórnarflokkarnir þrír hafa öruggan meirihluta á þingi. Allir flokkar ganga óbundnir til kosninga svo ekki er víst að stjórnarsamstarfið haldi áfram. Líklegt er að formaður stærsta flokksins verði næsti formaður grænlensku landsstjórnarinnar.

Tvær ríkisstjórnir undir forystu Kims Kielsens

Eftir síðustu kosningar haustið 2014 myndaði Kim Kielsen, leiðtogi jafnaðarmannaflokksins Siumut, stjórn með hægriflokknum Atassut og Demókrötunum, Demokraatit, sem er frjálslyndur miðjuflokkur. 
Deilur flokkanna urðu þessari stjórn að aldurtila í október 2016. Þá tók við stjórn, sem setið hefur fram að kosningum. Siumut hélt áfram í stjórninni og Inuit Ataqatigiit eða IA og miðjuflokkurinn Partii Naleraq gengu til samstarfs við Siumut. Kielsen hélt áfram sem formaður landsstjórnarinnar. Stjórnin var með öruggan meirihluta, naut stuðnings 24 þingmanna af 31 á Inatsisartut, Landsþingi Grænlands í Nuuk.  

Óvíst með áframhaldandi stjórnarsamstarf

Stjórnarflokkarnir hafa ekki viljað ræða neitt um áframhaldandi samstarf og líkur eru á að breytingar verði þó að sömu flokkar haldi áfram samstarfi. Samkvæmt skoðanakönnun sem birt var á föstudag er Siumut ekki lengur stærsti flokkur Grænlands. Flokkurinn fengi 9 þingsæti, og tapaði tveimur. IA er spáð 10 þingsætum, en flokkurinn fékk 11 í síðustu kosningum. Samkvæmt þessari könnun er IA orðinn stærsti flokkur landsins. Því er líklegt að Sara Olsvig, formaður IA, geri kröfu til þess að fara með formennsku í landsstjórninni, ef úrslitin verða eins og könnunin gefur til kynna. Þriðji stjórnarflokkurinn, Partii Naleraq, héldi sínum þremur þingmönnum samkvæmt þessari könnun. Demókrötum er spáð sex þingsætum og hinir þrír flokkarnir í framboði fengju einn hver, samkvæmt skoðanakönnuninni.

Nýir flokkar bjóða fram

Tveir nýir flokkar bjóða fram, Samarbejdspartiet, Suleqatigiissitsisut, hægrisinnaður sambandsflokkur, og Nunatta Qitornai, sem þýða mætti sem Erfingjar landsins. Formaður þess flokks er Vittus Qujaukitsoq, fyrrverandi utanríkisráðherra, sem klauf sig út úr Siumut í fyrra. Aleqa Hammond, fyrrverandi leiðtogi Siumut og landsstjórnarformaður 2013-14, gekk til liðs við Vittus og býður sig fram í kosningunum nú. Hún er umdeild og hefur verið sökuð um spillingu og vafasama meðferð almannafjár, en nýtur samt mikils persónufylgis, einkum í dreifðari byggðum. En Aleqa Hammond, sem situr nú á Þjóðþinginu í Kaupmannahöfn, hefur eiginlega ekki tekið neinn þátt í kosningabaráttunni. 

Hófstillt og málefnaleg kosningabarátta

Baráttan hefur verið venju fremur hófstillt að sögn Asks Rostrups, fréttamanns Danmarks Radio. Þetta hafi ekki verið leðjuslagur heldur hófstillt og kurteis kosningabarátta að mati frambjóðenda sjálfra. Sjálfstæði Grænlands hefur ekki verið beint kosningamál. Flestir flokka stefna að sjálfstæði í framtíðinni. Talsvert hefur verið rætt um menntamál, stöðu grænlenskunnar, almenn lífskjör og vöruverð. Þá hafa félagsleg vandamál einnig verið mikið rædd.

Sjónvarpsumræður í gærkvöld

Kosningabaráttunni lauk í gærkvöld með sjónvarpsumræðum, þar sem athyglin beindist samt mest að stóru flokkunum tveimur, IA og Siumut. Sara Olsvig, formaður IA, sagði í lokaorðum sínum í gærkvöld að flokkur hennar liti á hagsmuni heildarinnar. Hún vilji efla Grænland, efla einstaklinga og þannig gera veröld þeirra stærri. „Það eru 57 þúsund Grænlendingar og þeirra er að ákveða hver framtíð landsins verður", sagði Olsvig.

Ef kannanir reynast sannspáar verður Olsvig að líkindum næsti formaður landsstjórnarinnar, Naalakkersuisut. En þess ber að geta að fjórðungur aðspurðra í nýjustu könnuninni hafði ekki ákveðið hvað hann ætlaði að kjósa. 

Kielsen vill halda áfram

Kim Kielsen, formaður landsstjórnarinnar, sagði í sínum lokaorðum að það væri ekkert launungarmál að flokkur hans vildi vera áfram við stjórnvölinn.
Kielsen sagði að Siumut vildi halda áfram stjórnarforystu ekki síst til að bæta stöðu þeirra sem væru verst settir í samfélaginu.

Úrslit liggja líklega fyrir í nótt

Kjörstöðum verður lokað klukkan átta í kvöld, þá er klukkan tíu að íslenskum tíma. Grænlenskir miðlar búast við spennandi talningu. Tæplega 41 þúsund eru á kjörskrá og þó að Grænland sé stærsta eyja heims og kjörstaðir 72, er búist við að úrslit liggi fyrir um eða upp úr miðnætti að grænlenskum tíma. Grænlendingar eru ekki að drolla við talninguna fram á morgun eins og Íslendingar. Fylgjast má með talningu á vefsíðunni https://www.valg.gl/