Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Spenna í Miðausturlöndum gæti haft áhrif á Íslandi

08.01.2020 - 22:00
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Aukin spenna milli Bandaríkjanna og Írans gæti haft veruleg áhrif á verðlagsþróun hér á landi á næstu misserum að mati aðalhagfræðings Íslandsbanka. Áhrifin séu þó takmörkuð enn sem komið er.

 

Olíuverð á heimsmarkaði hækkaði snarpt í lok síðustu viku eftir að Qasem Soleimani herforingi í sérsveit byltingarvarðliðs Írans féll í loftárás Bandaríkjahers. Fjárfestar óttast nú að vaxanda spenna í Miðausturlöndum hafi neikvæð áhrif á framboð á eldsneyti.

Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir að þetta geti leitt til hækkandi vöruverðs hér á landi.

„Reyndar er stór hluti af eldsneytisverði á Íslandi krónutölugjöld þannig að það sveiflast ekki eins mikið eldsneytisverðið eins og heimsmarkaðsverð en hefur vissulega töluverð áhrif og þar við bætist að við sjáum hækkun á eldsneytisverði í eldsneytisfrekri þjónustu á borð við flugfargjöld og rútu og leigubílaverð og annað slíkt og á endanum hefur það svo auðvitað áhrif á allan innflutningskostnað vegna þess að við flytjum inn svo mikið af okkar neysluvörum,“ segir Jón Bjarki.

Ef ekki dragi úr spennu á milli ríkjanna sé hætt því að olíuverð haldist hátt og það hafi áhrif á verðbólguvæntingar hjá íslenskum fyrirtækjum.

„Það gæti komið til þess ef að sú hækkun sem þegar er orðin gengur ekki til baka og hvað þá ef það verður veruleg viðbótarhækkun þá fer ekki hjá því að það fer að hafa einhver áhrif á verðlag. Enn sem komið er eru áhrifin mjög takmörkuð sem betur fer en við verðum svolítið að sjá hvað setur. hvort að þessi þrýstingur verði viðvarandi eða hvort hann gengur til baka að einhverju leyti,“ segir Jón Bjarki. 

 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV