Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Spár um stórfellda fjölgun fjarri því að rætast

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Umsóknum um alþjóðlega vernd á Íslandi tók að fækka nánast sama dag og ný reglugerð dómsmálaráðherra um meðferð umsókna fólks frá öruggum ríkjum tók gildi. Lögregluyfirvöld eiga ekki von á því að tilhæfulausum umsóknum fari fjölgandi.

Á árunum 2014 til 2016 fjölgaði mjög umsóknum um alþjóðlega vernd á Íslandi og voru þær 1.133 þegar mest lét. Var því spáð á þessum tíma að fjöldi umsókna myndi allt að tvöfaldast. Þær spár voru hins vegar fjarri því að rætast, líkt og bent er á í nýrri skýrslu Ríkislögreglustjóra um umhverfi löggæslu fram til ársins 2024.  

Þar segir að frá því reglugerð dómsmálaráðherra um meðferð umsókna fólks frá öruggum ríkjum tók gildi í ágúst 2017, hafi umsóknum um alþjóðlega vernd tekið að fækka nánast samdægurs. Árið 2018 voru umsóknirnar 789 og í ágúst í fyrra höfðu 518 sótt um vernd. Er það mat greiningardeildar ríkislögreglustjóra að tæpast komi til þess að tilhæfulausum umsóknum fjölgi á meðan núverandi stefnu stjórnvalda sé viðhaldið.

Tugir umsækjenda frá Venesúela

Hins vegar er bent á að samsetning þess hóps sem sækir um alþjóðlega vernd hafi breyst. Tugir manna frá Venesúela hafi sótt um alþjóðlega venrd á síðustu misserum og þá sé ástæða til þess að fylgjast með fjölda umsókna frá Írak og Sýrlandi, ekki síst í ljósi hernaðaraðgerða Tyrkja haustið 2019.

Enn fremur er bent á að á Íslendingum hvíli alþjóðlegar skuldbindingar um að veita fólki sem flýr átök og ofsóknir alþjóðlega vernd. Þegar horft sé til ástandsins í Mið-Austurlöndum og Afríku megi teljast líklegt að á næstu fimm árum muni reyna enn frekar á þessar skuldbindingar. Stjórnvöld geti skapað svigrúm til að sinna þessum skuldbindingum með því að halda áfram að hafna tilhæfulausum umsóknum fólks frá svokölluðum öruggum ríkjum.