Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Spáir því að staðgöngumæðrun verði leyfð

06.07.2015 - 11:23
Glaður drengur
 Mynd: Steve Hillebrand - Wikimeda Commons
„Það er ekki víst að það kæmi sama niðurstaða í öllum tilvikum," segir Hrefna Friðriksdóttir, prófessor í lögfræði, um dóm í staðgöngumæðrunarmáli sem féll fyrir helgi.

Þar var því slegið föstu að kona, sem eignaðist börn með hjálp staðgöngumóður í Bandaríkjunum, mætti skrá sig sem móður barnanna í Þjóðskrá.

Hér á landi er óheimilt að eignast börn með hjálp staðgöngumóður. Hrefna Friðriksdóttir kom hins vegar að því að undirbúa frumavarp sem leyfir staðgöngumæðrunina. Frumvarpið var lagt fram síðasta haust, en var ekki samþykkt á þessu þingi .

Dómurinn sem féll fyrir helgi var fyrsta málið sem varðaði staðgöngumæðrun sem rataði fyrir dómstóla. Hrefna segir að dómurinn þýði ekki endilega að konur sem eignast börn með hjálp staðgöngumóður erlendis fái að skrá sig sem móður barnanna. „Við höfum séð í löndunum í kringum okkur að menn eru að fara með ólík mál fyrir dómstóla. Og það hafa komið mismunandi niðurstöður. Málin eru skoðuð frá öllum hliðum og geta ráðist á því hvernig staðgöngumæðrunin fór fram, hver átti kynfrumurnar og fleiru í þeim dúr," segir Hrefna.

Býst við því að frumvarpið verði samþykkt
Hrefna segir að dómurinn breyti heilt á litið ekki miklu hvað varðar staðgöngumæðrun hér á landi. Hún bendir á að Alþingi hafi þegar sett það á dagskrá að heimila staðgöngumæðrun hérlendis.

„En þetta er að mörgu leyti umhugsunarverð staða. Þegar Alþingi ákvað að óska eftir frumvarpi um staðgöngumæðrun, þá voru einmitt ein rökin þau að það væri betra að fólk gerði þetta hérlendis í stað þess að leita til staðgöngumóður erlendis. Eins og stendur verður fólk að leita út," segir Hrefna. Hún bendir á að sums staðar sé illa að ferlinu staðið, lítil vernd fyrir staðgöngumóður og því gæti verið hentugra að heimila ferlið einfaldlega hér.

Hrefna segist vita til þess að barnlaus pör á Íslandi hafi ákveðið að bíða eftir því að Alþingi tæki frumvarpið um staðgöngumæðrun til meðferðar. „Ég held að það sé einhverjir að bíða eftir lögunum og vilji eignast barn með þessum hætti hérlendis," segir hún, en bendir á að ekki hafi allir slíka biðlund.

Hrefna býst við að lögin verði samþykkt á næsta þingvetri. „Ef ég ætti að spá einhverju, þá spái ég því að þetta verði lagt fram aftur næsta haust og það verði samþykkt á næsta þingi. Ég veit það ekki, ég er ekki stjórnmálamaður. En ég spái því samt. Það er mín upplifun," segir hún.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV