Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Spáir alvarlegri kreppu en árið 2009

23.03.2020 - 18:55
epa08269367 International Monetary Fund Managing (IMF) Director Kristalina Georgieva participates in a joint press conference with World Bank Group President David Malpass (unseen) on the organizations response to the COVID-19 coronavirus outbreak at the IMF headquarters in Washington, DC, USA, 04 March 2020. The two international organizations have also changed their upcoming annual spring meetings to a virtual gathering due to the COVID-19 coronavirus outbreak.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
Kristalina Georgieva, yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Mynd: EPA-EFE - EPA
Alvarlegir efnahagserfiðleikar eru framundan í heiminum, jafnvel enn alvarlegri en árið 2009, segir Kristalina Georgieva, yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hún skoraði í dag á þjóðir heims sem vel standa á efnahagssviðinu að koma hinum snauðari til aðstoðar. Þá tilkynnti hún að sjóðurinn væri tilbúinn að lána allt það fé sem hann hefði yfir að ráða, eina billjón dollara.

Efnahagssamdrátturinn í heiminum var 0,6 prósent árið 2009 vegna bankakreppunnar árið á undan. Á þeim tíma var umtalsverður hagvöxtur á Indlandi og í Kína. Því er ekki til að dreifa og því er jafnvel spáð að samdrátturinn geti numið allt að 1,5 prósentum á heimsvísu í ár.

Georgieva sagði þegar hún ræddi horfurnar framundan að sá skaði væri ómælanlegur sem kórónuveiran hefði valdið þegar litið væri til dauðsfalla. Allar þjóðir yrðu að vinna saman að því að vernda fólk og lágmarka efnahagstjón af hennar völdum. Ljóst væri að fátæk og nýiðnvædd ríki ættu eftir að skaðast verulega og því þyrftu þau á fjárhagsaðstoð og jafnvel skuldaniðurfellingu að halda. Hún bætti því við að hátt í áttatíu ríki hefðu leitað aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að glíma við COVID-19 faraldurinn.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV