
Spáir alvarlegri kreppu en árið 2009
Efnahagssamdrátturinn í heiminum var 0,6 prósent árið 2009 vegna bankakreppunnar árið á undan. Á þeim tíma var umtalsverður hagvöxtur á Indlandi og í Kína. Því er ekki til að dreifa og því er jafnvel spáð að samdrátturinn geti numið allt að 1,5 prósentum á heimsvísu í ár.
Georgieva sagði þegar hún ræddi horfurnar framundan að sá skaði væri ómælanlegur sem kórónuveiran hefði valdið þegar litið væri til dauðsfalla. Allar þjóðir yrðu að vinna saman að því að vernda fólk og lágmarka efnahagstjón af hennar völdum. Ljóst væri að fátæk og nýiðnvædd ríki ættu eftir að skaðast verulega og því þyrftu þau á fjárhagsaðstoð og jafnvel skuldaniðurfellingu að halda. Hún bætti því við að hátt í áttatíu ríki hefðu leitað aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að glíma við COVID-19 faraldurinn.