Spáir allt að 20% færri ferðamönnum í sumar

04.06.2019 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
„Ég er ekki bjartsýnn fyrir sumarið og haustið. Ég held að það megi alveg gera ráð fyrir 15% samdrætti í fjölda og jafnvel 20%. En á næsta ári og næstu ár geri ég ráð fyrir því að það verði áfram öflug ferðaþjónusta í landinu,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri.

Það eru blikur á lofti á flugmarkaði. Áætlunarferðum frá Keflavíkurflugvelli fækkaði um 28% í síðasta mánuði, að því er segir á vefnum Túristi.is. Bandaríska flugfélagið Delta Airlines hættir áætlunarferðum hingað til lands í haust, EasyJet fækkar ferðum vegna verðlags - og um þriðjungur ferðamanna kom hingað til lands með WOW air áður en flugfélagið varð gjaldþrota.

Á móti kemur að United Airlines ætlar að fljúga daglega milli Íslands og New York í sumar, samkvæmt Túrista.is. Þá ætla forsvarsmenn British Airways og Wizz air að fjölga ferðum frá Lundúnum í vetur. 

Icelandair hafði reiknað með níu MAX-8-þotum í leiðakerfi sitt í sumar en hefur nú þurft að fella niður 200 ferðir frá Keflavík á tveimur mánuðum vegna kyrrsetningar þeirra, sem er um 5% af sætaframboði félagsins í sumar. Bilun í hugbúnaði vélanna er talin hafa valdið tveimur mannskæðum flugslysum. Þrátt fyrir það hefur framboð flugsæta félagsins aukist um 10% frá því á sama tíma í fyrra.

Fyrirtæki á landsbyggðinni í hættu

Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri segir að lítið sé hægt að gera annað en að bíða og sjá hvað forsvarsmenn flugfélaganna ákveða. Því lengra sem farið er frá höfuðborgarsvæðinu því meiri áhrif hefur samdrátturinn.

„Sérstaklega er þetta áhyggjuefni á landsbyggðinni þar sem að undanfarin tvö til þrjú ár hefur verið neikvæð afkoma á rekstri fyrirtækjanna. Það má alveg búast við því að mörg þeirra eigi í verulegum vandræðum og jafnvel að þau ráði ekki við það.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi