Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Spá nokkuð öruggum sigri rauðu blokkarinnar

03.06.2019 - 06:18
Mynd með færslu
Kristjánsborgarhöll, aðsetur danska þingsins Mynd: CC0 - Pixabay
Danskir vinstriflokkar bæta við sig töluverðu fylgi í nýrri skoðanakönnun sem Norstat gerði fyrir Jótlandspóstinn. Samkvæmt henni fá vinstriflokkarnir þrír sem búist er við að veita muni Jafnaðarmönnum atfylgi sitt við stjórnarmyndun með einum eða öðrum hætti, samtals 42 þingmenn í kosningunum á miðvikudaginn. Flokkarnir; Róttæki vinstriflokkurinn, Einingarlistinn og Sósíalíski þjóðarflokkurinn, fengu 29 þingmenn í kosningunum 2015. Jafnaðarmenn fá samkvæmt sömu könnun 51 þingmann nú í stað 46.

Samtals fá flokkarnir fjórir um 52 prósent atkvæða og 93 þingmenn af 179, gangi þessi spá eftir, en stjórnarflokkarnir og Danski þjóðarflokkurinn fá samtals 36,5 prósent og 66 fulltrúa samkvæmt sömu könnun. Afgangurinn skiptist á milli þjóðernissinnanna í Nýja borgaraflokknum (7), Alternativet eða Annars kosts (5) og Íhaldsflokksins (4).

Þjóðernisöfgaflokkur Rasmusar Paludans, Stram Kurs, fær samkvæmt þessari könnun aðeins 2,2 prósent atkvæða og virðist því ekki ætla að ná manni á þing samkvæmt frétt Jótlandspóstsins.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV