Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sósíalistar sigurstranglegir í Portúgal

04.10.2019 - 17:34
Portuguese Prime Minister and Socialist Party leader Antonio Costa greets supporters during an election campaign action in downtown Lisbon Friday, Oct. 4, 2019. Portugal will hold a general election on Oct. 6 in which voters will choose members of the next Portuguese parliament. The ruling Socialist Party hopes an economic recovery during its four years of governing will persuade voters to return the party to power. (AP Photo/Armando Franca)
 Mynd: AP
Flest bendir til þess að Antonio Costa forsætisráðherra og Sósíalistaflokkur hans verði við völd á næsta kjörtímabili í Portúgal. Þingkosningar verða þar á sunnudag.

Það hefur verið stuð og stemmari á kosningafundum Antonios Costa að undanförnu. Skoðanakannanir sýna að Sósíalistaflokkur hans hefur meðbyr meðal kjósenda. Könnun sem birt var í gær sýnir að flokkurinn er með 36 prósenta fylgi, sex prósentustigum meira en helsti keppinauturinn, Sósíaldemókratar. Það þýðir að Costa og félagar eru nálægt því að ná hreinum meirihluta á þingi. Stuðningur smáflokks á vinstri vængnum nægir til að mynda stjórn að nýju.

Þessi velgengni vinstrimanna í Portúgal er á skjön við þróunina víðast hvar annars staðar í Evrópu þar sem mið- og hægriflokkar hafa verið í uppsveiflu. Eftir umtalsverða efnahagsdýfu eftir hrunið 2008 hefur orðið umsnúningur á síðustu árum. Hagvöxtur í hittiðfyrra var 3,5 prósent og 2,4 prósent í fyrra. Atvinnuástandið hefur snarbatnað og Antonio Costa lýsti því glaðhlakkalega yfir á kosningafundi í vikunni að launalækkanir væru gengnar til baka og sömuleiðis skerðingar á eftirlaunum.

Fyrir fjórum árum var því spáð að stjórn Sósíalista og lítils kommúnistaflokks ætti að eftir að mistakast að koma efnahag Portúgals á réttan kjöl. Costa minnti á þetta á kosningafundinum. „Við erum enn í bandalagi evruríkja og þurfum ekki á aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að halda,“ sagði hann. „Hrakspárnar rættust ekki.“

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV