Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sorpurðun til skoðunar hjá Umhverfisstofnun

23.05.2019 - 06:48
Mynd með færslu
Sorpurðun í Fíflholti á Mýrum. Þingmennirnir vilja minnka urðun og frekar brenna sorp. Mynd: Rakel Steinarsdóttir - Aðsend mynd
Umhverfisstofnun hefur sett sig í samband við Sorpurðun Vesturlands og er með mál fyrirtækisins til skoðunar, þar með talið hvort að skilyrðum starfsleyfis hafi verið framfylgt. Urðunin er í Fíflholti og þaðan hefur fokið nokkuð af rusli, íbúum í nágrenninu til ama.

Sorpurðun Vesturlands er í eigu sveitarfélaganna á Vesturlandi og þar er urðaður blandaður úrgangur frá heimilum, sveitarfélögum og fyrirtækjum á Vesturlandi og hluti úrgangs frá sveitarfélögum á Suðurlandi og Vestfjörðum. Fyrirtækið hefur haft leyfi til urðunar á 15.000 tonnum á ári en hefur sótt um leyfi til að urða 25.000 tonn á ári. Í svari Umhverfisstofnunar við fyrirspurn fréttastofu segir að það mál sé í bið þar sem slík breyting sé tilkynningaskyld með tilliti til mats á umhverfisáhrifum. „Umhverfisstofnun hefur upplýsingar að stækkunin þurfi að fara í gegnum mat á umhverfisáhrifum og að það mál sé í ferli hjá Skipulagsstofnun,“ segir í svari Umhverfisstofnunar.  

Töluvert af plasti hefur fokið frá urðunarstaðnum í Fíflholtum í vetur. Sigurður Jóhannsson, bóndi á Kálfalæk, sem er í um níu kílómetra fjarlægð sagði í samtali við fréttastofu í vikunni að ruslið hafi verið með allra mesta móti í vetur og að ástandið væri óviðunandi. Ekki er bannað að urða plast samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs. Starfsleyfi sorðurðunarinnar kveður á um að heimilt sé að urða allan úrgang sem hefur verið meðhöndlaður, nema fljótandi úrgang, hjólbarða, brotajárn, ökutæki og spilliefni.

Í starfsleyfi Sorpurðunar Vesturlands eru hins vegar sett skilyrði um starfshætti svo að urðunin valdi sem minnstum óþrifnaði svo sem foki úrgangsefna, segir í svari Umhverfisstofnunar. Girðingar umhverfis urðunarstaðinn eiga að varna því að sorp fjúki en daglegur frágangur á jafnframt að vera með þeim hætti að þekjulag hindri fok þaðan. 

Rakel Steinarsdóttir birti myndbandið fyrir neðan á Facebook-síðu sinni á dögunum og hefur það vakið mikla athygli og verið deilt yfir 800 sinnum. Myndbandið var tekið um síðustu helgi.