Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sorphirða í borginni hefst á ný í fyrramálið

01.03.2020 - 13:25
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Efling hefur samþykkt beiðni Reykjavíkurborgar um undanþágu frá verkfalli vegna sorphirðu af lýðheilsuástæðum vegna COVID-19 veirunnar. Byrjað verður að hirða sorp í Breiðholti í fyrramálið. Verkfallið hefur staðið yfir síðan um miðjan febrúar.

Sjá einnig: Sorplúgum lokað í stórum fjölbýlum vegna verkfalls

Undanþágan gildir til 6. mars. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að öll sorphirða í borginni sé á eftir áætlun vegna verkfallsins. Íbúar í Breiðholti eru beðnir um að moka vel frá sorptunnum og ganga vel frá aukaúrgangi til að flýta fyrir sorphirðunni.

Þegar sorphirðu lýkur í Breiðholti um miðja vikuna verður hafist handa í Árbæ. Ekki náðist að hirða sorp í þessum tveimur hverfum áður en ótímabundið verkfall Eflingar hófst. Aðeins verður blandað heimilissorp hirt í þessari viku, en ekki pappír og plast.