Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sorgleg saga Whitney Houston

Mynd: EPA / EPA

Sorgleg saga Whitney Houston

19.09.2017 - 14:20

Höfundar

Í nýrri heimildamynd Nicks Broomfield „Whitney: Can I be me“ segir af ævi og ferli söngkonunnar Whitney Houston, en frægðarsól hennar skein skært á níunda og tíunda áratug síðustu aldar, áður en halla fór undan fæti. Whitney lést þann 11. febrúar 2012, aðeins 48 ára að aldri.

Titill myndarinnar er rauði þráðurinn í nálgun Broomfield og áhorfendur fá innsýn í líf hinnar „raunverulegu“ Whitney, stúlku sem glímdi við skort á sjálfstrausti þrátt fyrir fegurð og hæfileika, stúlku sem þráði bara að vera hún sjálf, en allir vildu eigna sér.

Myndin er samsett af ýmsu myndefni úr lífi Whitney, bæði af tónleikum og úr einkalífinu, auk þess sem rætt er við fjölskyldu, vini og samstarfsfólk. Töluvert er af myndefni úr hennar síðustu tónleikaferð árið 1999 og þó nokkuð af myndefni sem ekki hefur sést áður. 

Nokkuð er fjallað um kynhneigð Whitney og samband hennar við Robyn Crawford sem var hennar helsta stoð og stytta allt frá unglingsaldri, auk þess sem fjallað er um stormasamt hjónaband hennar og Bobby Brown og lífstílinn sem leiddi að lokum til sorglegra endaloka. Bakgrunnur Whitney, áhrif fjölskyldunnar, trúin og ástin – allt leikur þetta hlutverk í sögu hennar og skapar þá braut sem hún gekk. Ekkert er dregið undan, en leikstjórinn setur sig ekki í dómarasæti. 

Að áhorfi loknu verður ekki hjá því komist að velta fyrir sér hvort Whitney væri enn á lífi hefði hún bara fengið að vera hún sjálf? Athyglisverð mynd sem tónlistarunnendur ættu ekki láta framhjá sér fara. 

Whitney: Can I be me er að finna á streymiveitunni Netflix og víðar.