Söngvarar framtíðarinnar kepptu á Hvammstanga

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn

Söngvarar framtíðarinnar kepptu á Hvammstanga

12.02.2020 - 14:48

Höfundar

„Við erum mjög stressaðar,“ sögðu vinkonurnar Ísey Lilja Waage og Valdís Freyja Magnúsdóttir rétt áður en þær stingu á sviðið í söngvarakeppni Grunnskóla Húnaþings vestra á dögunum. Fjallað var um keppnina í Landanum á sunnudagskvöld.

Söngvarakeppnin er einn af hápunktum skólastarfsins á hverjum vetri. Hún var fyrst haldin á Laugarbakka fyrir um 30 árum síðan en eftir að skólarnir á svæðinu sameinuðust hefur hún verið haldin í félagsheimilinu á Hvammstanga. 

„Það er gríðarlega öflgut tónlistarlíf hér. Fullt af hljóðfæraleikurum, fullt af söngvurum og krakkarnir allir að spila og syngja,“ segir Valdimar Gunnlaugsson sem hafði umsjón með keppninni og spilaði einnig með hljómsveitinni. 

Guðmundur Grétar Magnússon, nemandi í 10. bekk, fékk að spila með hljómsveitinni í ár og var auk þess með tvö atriði í keppninni. Meðal annars frumsamið lag og texta sem hann sagði gaman að fá að flytja fyrir fullum sal af fólki. „Það er líka gaman að vera með svona gott band sem getur fylgt eftir laginu sem maður semur. Það er geggjað,“ segir hann.