Sömdu um ferða-, menningar- og sjávarútvegsmál

10.09.2019 - 17:50
Mynd: Rúv / Rúv
Ráðamenn frá Íslandi og Indlandi undirrituðu samkomulög milli ráðuneyta landanna á Bessastöðum í dag að Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands og Ram Nath Kovind, forseta Indlands viðstöddum. Tekið var á móti Indlandsforseta og Savitu Kovind forsetafrú á Bessastöðum. Forsetinn er í sinni fyrstu heimsókn til norræns ríkis. Samið var um undanþágu frá vegabréfsáritun fyrir embættismenn sem ferðast milli landanna og undirritaður menningarsamningur og samstarfsyfirlýsing um útvegs- og fiskeldismál.

Vilja efla samstarf í sjávarútvegsmálum

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og T. Armstrong Changsan, sendiherra Indlands á Íslandi, undirrituðu samstarfsyfirlýsingu um sjávarútvegs- og fiskeldismál. Í henni er vikið er að mikilvægi fiskveiðistjórnunar, sjálfbærra veiða og umhverfissjónarmiða sem og fullnýtingar afurða og hámörkunar verðmæta þeirra.

Með yfirlýsingunni á að efla samstarf og samvinnu á sviði rannsókna og þróunar í sjávarútvegsmálum. Markmiðið er að ýta undir samstarf íslenskra og indverskra fyrirtækja á þessum vettvangi.

„Mikilvæg tækifæri geta falist í þessu samstarfi fyrir íslensk fyrirtæki til að hasla sér völl á sístækkandi markaði Indlands,“ sagði Kristján Þór. „Um leið er þetta tækifæri til að miðla af reynslu Íslendinga þegar að kemur að hagkvæmri fiskveiðistjórnun, sjálfbærum veiðum og fullnýtingu afurða.“

Menningarsamningur milli landanna

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Anumula Gitesh Sarma, skrifstofustjóri Evrópumála í utanríkisráðuneyti Indlands, undirrituðu nýjan menningarsamning í dag. Hann er til fjögurra ára. 

Í samningnum lýsa stjórnvöld landanna yfir vilja sínum til þess að efla samskipti landanna á menningarsviðinu, meðal annars með því að hvetja til skiptiheimsókna lista- og fræðimanna og styðja við uppsetningu sýninga, þýðingar og rekstur menningarhátíða. Þá segir í samningum að efla eigi samskipti ríkisútvarpsstöðva landanna tveggja í því skyni að auka framboð á sjónvarpsefni frá hvoru landi um sig.

Fá undanþágu frá vegabréfsáritun

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Anumula Gitesh Sarma undirrituðu samning um undanþágu frá vegabréfsáritun fyrir handhafa diplómatískra vegabréfa og þjónustuvegabréfa sem tilteknir embættismenn geta fengið, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

„Samningurinn undirstrikar vináttu ríkjanna og mun auðvelda samskipti milli íslenskra og indverskra stjórnvalda sem hafa farið vaxandi á undanförnum misserum,“ sagði utanríkisráðherra.

 

 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi