Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sólveig Anna stolt og ánægð með samninginn

10.03.2020 - 07:14
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
„Við í samninganefnd erum bara mjög ánægð,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skömmu eftir undirritun kjarasamnings félagsins við Reykjavíkurborg. Lægstu laun hækka um allt að 112.000 krónur á mánuði.

„Þetta hefur tekið ótrúlega langan tíma og félagsmenn Eflingar eru eins og allir vita búnir að vera í verkfalli mjög lengi. En það hefur loksins skilað okkur þessum árangri, sem við teljum mjög ásættanlegan, þar sem við náum fram leiðréttingu fyrir um það bil þrjá fjórðu af félagsmönnum Eflingar sem starfa hjá borginni, þar sem fólkið í lægstu launaflokkunum er að hækka umfram hækkanir lífskjarasamningsins, og það ríflega,“segir Sólveig Anna. „Þannig að við erum bara mjög stolt og ánægð af þeim árangri sem við höfum náð.“ 

Sögulega vanmetin kvennastörf fá leiðréttingu launa

Lífskjarasamningshækkunin sem Sólveig vísar til hljóðar upp á 90.000 krónur á lægstu laun, en Efling samdi við borgina um allt að 112.000 króna hækkun mánaðarlauna þeirra lægst launuðu, sem eru í fullu starfi. „Við lítum á þessa umframhækkun sem viðurkenningu á okkar málflutningi og kröfum  um að sögulega vanmetin kvennastörf þurfi einfaldlega á þessari leiðréttingu að halda," segir Sólveig.

Auk þessarar hækkunar var samið um styttingu vinnuvikunnar í takt við það sem gert hefur verið að undanförnu. Vinnuvika vaktavinnufólks fer niður í 36 tíma og 32 tíma hjá þeim sem ganga vaktir allan sólarhringinn. Þá getur vinnuvika dagvinnufólks líka farið allt niður í 36 tíma. Einnig eru leikskólastarfsfólki tryggðir 10 yfirvinnutímar á mánuði í formi sérgreiðslu, auk þess sem námskeiðum og fræðslu er gefið aukið vægi í launum og fólk getur farið að safna sér fyrir launuðum námsleyfum og svo mætti áfram telja.

Væntir skjótrar lausnar í viðræðum við sveitarfélögin

Í gær hófst verkfall um 300 Eflingarfélaga í fimm sveitarfélögum; Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi, Ölfusi og Hveragerði. Það verkfall stendur enn og ekki hefur verið boðað til fundar í deilunni. Sólveig Anna á von á því að það verði gert strax í dag.

„Og ég á ekki von á öðru en að við náum að ganga frá samningi þar bara fljótlega. Nú höfum við bæði undirritað samning við ríki og borg þar sem við fáum viðurkenningu á því, að  kröfur okkar um leiðréttingu nái að einhverju leyti í gegn. Og ég á ekki von á öðru en við náum slíkum árangri hjá sveitarfélögunum líka," sagði Sólveig Anna.    

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV