Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Soldáninn sem Clooney vill láta sniðganga

01.04.2019 - 19:27
Mynd: EPA-EFE / EPA
Tveir dagar eru þar til ný lög ganga í gildi í smáríkinu Brúnei, sem heimila að fólk sem dæmt er fyrir samkynhneigð eða hjúskaparbrot, sé grýtt til dauða. Lagabreytingunni hefur verið mótmælt víða, og hefur áður verið frestað vegna gagnrýni.

Bandaríski leikarinn George Clooney hvatti á dögunum fólk til að sniðganga hótel sem hafa tengsl við stjórnvöld í Brúnei. Hótelin eru þónokkur, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. En af hverju vill Clooney ekki að fólk velji sér næturstað á hótelum þar sem fjárfestingarfélagið Brúnei Investment Agency kemur að rekstrinum? Félagið er að hluta í eigu soldánsins í Brúnei. 

Eitt ríkasta land heims

Brúnei er ríki á eyjunni Borneó við Suður-Kínahaf. Landið telst víst fremur lítið, nær yfir um 5.700 ferkílómetra svæði og á landamæri að austari hluta Malasíu. Þar býr tæplega hálf milljón og landið er ríkt af náttúruauðlindum á borð við olíu og gas. Brúnei er reyndar eitt ríkasta land heims. 

Brúnei hefur verið soldánsdæmi allt frá 14.öld og sá sem í embættinu situr nú heitir Hassanal Bolkiah. Og það eru ekki nýjar fréttir því hann hefur gegnt því embætti í 51 ár. Á þeim tíma hefur margt breyst, meðal annars fékk ríkið sjálfstæði frá Bretum árið 1984, þar hafa verið innleidd sjaría-lög og stjónvöld hafa látið hendur standa fram úr ermum við að koma á því stjórnkerfi sem soldáninn kýs helst. Og meðal þess er hin umdeilda lagabreyting sem styrinn sendur um.

Samkvæmt þeim á að grýta samkynhneigt fólk til bana. Sömu örlög bíða þeirra sem hafa hlotið dóm fyrir framhjáhald. Þá er áformað að refsa þjófum með því að höggva af þeim útlim. 

 

Lagabreytingin hefur verið á stefnuskrá stjónvalda býsna lengi. Hin nýju lög voru fyrst kynnt til sögunnar árið 2013 en gildistökunni hefur verið frestað nokkrum sinnum vegna mótmæla mannréttindasamtaka.

Skiptir soldáninn aftur um skoðun?

Og nú beinast öll spjót aftur að soldáninum. Því þó það séu ekki allir sem eru til í að sniðanga hótel soldánsins, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði,  eru gagnrýnisraddirnar háværar. Og ekki bara frá Clooney og öðrum stórstjörnum. Michelle Bachelet, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, fordæmdi lagasetninguna í dag og sagði hana brjóta alvarlega á mannréttindum íbúa Brúnei.

Hvort soldáninn af Brúnei tekur gagnrýni sem þessa til greina getur tíminn einn leitt í ljós.