
Qaboos steypti föður sínum af stóli árið 1970 og tók völdin í landinu án nokkurra blóðsúthellinga. Hann var sá þjóðhöfðingi í arabíska menningarheiminum sem lengst hafði setið á valdastóli. Í valdatíð sinni breytti hann Óman úr fátæku og vanþróuðu landi þar sem innviðir voru í molum í nútímalegt ríki þar sem hagsæld almennings er meiri og almennari en gengur og gerist í þessum heimshluta, að því er fram kemur í eftirmælum soldánsins í erlendum fjölmiðlum, svo sem BBC, The Guardian og Al Jazeera.
Breytti reglum um erfðaröð
Fjarvera hans síðustu misseri vegna veikinda og læknismeðferðar, meðal annars í Belgíu og Þýskalandi, vakti hins vegar upp spurningar og áhyggjur af mögulegum arftaka hans. Soldáninn, sem hvorki átti börn né bræður, gerði breytingar lögum um erfðaröð fyrir nokkrum árum og skipaði fimm manna ráð, sem skera skal úr ef upp koma deilur innan hinnar konunglegu fjölskyldu. Sjálfur tilkynnti hann aldrei opinberlega, hvern hann vildi sjá á valdastóli eftir sinn dag.
Það kemur ekki í ljós ef konungsfjölskyldunni tekst a koma sér saman um arftaka hans innan þriggja sólarhringa. Gerist það ekki verður hins vegar sá gerður að soldán, sem Qaboos nefnir í tveimur innsigluðum bréfum.
Áhrifamaður í Arabaheiminum
Þótt Óman sé hvorki stórt né fjölmennt ríki - íbúar eru um 4,5 milljónir - var soldáninn mikill áhrifamaður í þessum heimshluta og skilur eftir sig stórt skarð langt út fryir landamæri Ómans, að mati stjórnmálaskýranda Al Jazeera. Mjög var leitað til hans þegar miðla þurfti málum í erfiðum deilum og er hann sagður hafa gegnt lykilhlutverki í viðræðum sem að lokum leiddu til kjarnorkusamkomulags Írans og stórveldanna árið 2015, sem nú er í uppnámi.