Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Solberg biður „tyskerjentene“ afsökunar

18.10.2018 - 18:09
Mynd: Deutsches Bundesarchiv / Deutsches Bundesarchiv Wikimedia
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, hefur beðist afsökunar á framkomu norskra stjórnvalda við konur sem áttu í sambandi við Þjóðverja í hernámsliðinu í Noregi í síðari heimsstyrjöldinni. Margar voru sviptar borgaralegum réttindum og sumar sviptar ríkisfangi og reknar úr landi.

Ástir norskra kvenna og þýskra hermanna

Þjóðverjar hernámu Noreg í apríl 1940 og landið var hersetið til loka síðari heimsstyrjarldarinnar í maí 1945. Tugþúsundir norskra stúlkna og kvenna áttu í ástarsambandi við Þjóðverja í hernámsliðinu og sættu hatri og fyrirlitningu margra landa sinna. Konurnar, og börn sem þær eignuðust, máttu þola afar óblíða meðferð að styrjöldinni lokinni, bæði af hálfu almennings og yfirvalda.

Litið á þær sem föðurlandssvikara

Margir litu á þær sem föðurlandssvikara og þær og börnin sættu refsingum samkvæmt afturvirkum lögum sem sett voru að styrjöldinni lokinni. Þær voru sviptar borgaralegum réttindum, margar voru handteknar, þær, sem höfðu gifst Þjóðverjum, voru sviptar ríkisfangi og reknar úr landi. Reidar Gabler lýsti í viðtali við norska ríkisútvarpið, NRK, hvernig hann og móðir hans voru svipt ríkisfangi og send til Þýskalands þegar var hvítvoðungur.

Líklega um tíu  prósent ungra norskra kvenna     

Ekki er vitað með vissu hversu margar konur í Noregi áttu í sambandi við Þjóðverja, áætlað er að þær hafi verið 30-50 þúsund. Það eru um tíu prósent norskra kvenna á aldrinum 18 og 35 ára á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Þeim fæddust um tíu þúsund börn.

Börnin sóttu ofsóknum og einelti

Börn hafa mátt sæta einelti og þola athugasemdir og háðsglósur nánast allt lífið. Reidar Gabler var leyft að flytja aftur til Noregs, en Else móðir hans mátti það ekki. Gabler reyndi að fela upprunann, sagðist jafnvel hafa óttast um líf sitt ef fólk vissi um faðerni hans.  Gabler sagðist hafa mátt heyra hreytt í sig athugasemdum allt fram undir aldamótin. 

Anni Frid Lyngstad

Ein kvennanna sem hröktust úr landi var Synni Lyngstad, sem flutti til Svíþjóðar ásamt móður sinni og 18 mánaða dóttur, Anni-Frid, sem fæddist í nóvember 1945. Faðir hennar var þýskur liðþjálfi, Alfred Haase. Synni lést skömmu eftir að þær komu til Svíþjóðar svo Anni Frid var alin upp af ömmu sinni. Anni-Frid var frá unga aldri tónelsk og gædd góðri söngrödd og kom fyrst fram opinberlega ellefu ára gömul. Hún er án efa þekktust allra afkomenda norskrar konu og þýsks hermanns því hún öðlaðist heimsfrægð sem Frida Lyngstad, önnur söngkonan í ABBA.

Samböndin voru af ýmsum toga

Faðir Anni-Frid Lyngstad var giftur fyrir þegar hún fæddist og samband foreldra hennar var stutt. Stundum var um skyndikynni að ræða. En það eru dæmi um mörg sambönd sem urðu að ævilöngu hjónabandi. Þannig var því farið með foreldra Reidars Gablers, eins og hann sagði Ernu Solberg forsætisráðherra. 

Solberg segir Noreg hafa brugðist konunum

Reidar Gabler hitti Solberg þegar forsætisráðherrann baðst afsökurnar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar á þeirri meðferð sem konurnar máttu þola. Solberg sagði að ríkið hefði brugðist þeim, framkoma stjórnvalda hefði ekki verið samboðin réttarríki. Afsökunarbeiðni norsku ríkisstjórnarinnar kom eftir að birt var rannsókn á meðhöndlun kvennanna. Solberg sagði að langt væri um liðið en ríkisstjórnin ætlaði að láta kanna örlög kvennanna svo að ríkið geti greitt skaðabætur. Norski forsætisráðherrann gekk svo langt að segja framgöngu yfirvalda hafa verið stjórnarskrárbrotErlendir miðlar hafa fjallað nokkuð um þessa síðbúnu afsökun.

Finnst sárt að móðirin skyldi ekki lifa þennan dag

Reidar Gabler sagði að þetta væri stór dagur í lífi hans. Það er dásamlegt, sagði hann, að loksins, loksins væri komin afsökunarbeiðni. ,,Ég get ekki lýst tilfinningunni, þetta er svo dásamlegt. Það er leitt að móðir min skyldi ekki lifa þetta."
 

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV