Sögurnar sagðar en enginn að hlusta

18.09.2019 - 20:15
Mynd: Þór Ægisson / Þór Ægisson
Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, fötlunaraktivisti, segir að fötluðum konum sé haldið á jaðri metoo-hreyfingarinnar og baráttumálum þeirra sé ekki gert hátt undir höfði. Sögur fatlaðra kvenna séu sagðar en enginn hlusti.

Upplifa sig á jaðri umræðunnar

Alþjóðleg ráðstefna um áhrif #metoo-hreyfingarinnar fer nú fram í Hörpu. Undir formerkjum #metoo hafa konur um allan heim stigið fram og greint frá kynferðislegu ofbeldi og kynbundinni og kynferðislegri áreitni síðustu tvö ár. Fatlaðar konur og #metoo var eitt af erindum ráðstefnunnar í dag. Samhljómur var á milli þátttakenda þar að fatlaðar konur séu utan #metoo-hreyfingarinnar. Þær séu gagnrýndar bæði fyrir að hafa hátt og segja sögur sínar - en einnig fyrir að þegja og taka ekki þátt. 

„Ég held að margar konur hafi upplifað sig á jaðrinum í þessari umræðu og í raun og veru ekki hluti af henni. Ofbeldi gagnvart fötluðum konum er flóknara að mörgu leyti heldur en ofbeldi gegn ófötluðum konum en það er líka bara viðurkenndara,“ segir Inga Björk. 

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir
 Mynd: Þór Ægisson
Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir

Ofbeldið samgróið menningunni

Ofbeldið sé meira falið og bundið í menningu okkar því stöðugt sé gengið á mörk fatlaðra kvenna. Þær þurfi oft að reiða sig á aðstoð annarra sem geri þær útsettari fyrir kynferðislegu ofbeldi. 

„Þannig að segjum sem svo að kona búi með manni sem beitir hana ofbeldi, hann sér líka um að aðstoða hana oh hann sér um að hugsa um hennar daglegu þarfir. Þá er hún algjörlega háð því að fá hans aðstoð - því hvert ætlar hún að snúa sér ef hún slær á höndina sem aðstoðar?“

Inga segir að sögum fatlaðra kvenna sé sýndur afar lítill áhugi. Það hafi kristallast í því hve fáir hafi mætt á erindið í dag en af rúmlega 800 gestum ráðstefnunnar sátu einungis um 30 í salnum. Inga vakti máls á þessu á Twitter þar sem hún segir „Ég ætti að vera á bleiku femínisku skýi en í staðinn líður mér eins og einhver hafi kýlt mig í magann.“

Vandamálið ekki skortur á frásögnum

„Það segir bara svolítið mikið um áhugann á málefnum fatlaðra kvenna. Það er litið á þetta sem velferðarmál frekar en mannréttindamál eða femínískt mál. Ofbeldi gegn fötluðum konum er ekki velferðarmál. Það er alveg eins og ofbeldi gegn öðrum konum.“

Hún hafi ekki fundið fyrir miklum breytingum í kjölfar #metoo-hreyfingarinnar. 

„Ég held ég geti talað fyrir þann hóp sem ég er í og þann hóp sem er í kringum mig að það er ekki mikil breyting á og jafnvel meiri harka gagnvart okkar sögum.“

„Það er ekki það að sögurnar séu ekki sagðar. Það er bara ekki verið að hlusta.“

 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi