Sögur með konum í lykilhlutverkum mikilvægar

Mynd með færslu
Hilmar Sigurðsson, forstjóri Sagafilm, Hrönn Þorsteinsdóttir, fjármála- og mannauðsstjóri og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.  Mynd:

Sögur með konum í lykilhlutverkum mikilvægar

19.11.2018 - 12:31

Höfundar

Það er mikilvægt að segja sögur þar sem konur eru í lykilhlutverkum, að mati Hilmars Sigurðssonar, forstjóra Sagafilm. Fyrirtækið hlaut hvatningarverðlaun jafnréttismála árið 2018. Að verðlaununum standa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð og Háskóli Íslands. UN Women á Íslandi er sérstakur samstarfsaðili verkefnisins. Verðlaunin voru veitt í hátíðarsal Háskóla Íslands í morgun.

Sagafilm framleiðir sjónvarpsþætti, kvikmyndir og auglýsingar. Sú grein hefur í gegnum tíðina verið talin frekar karllæg. Hrönn Þorsteinsdóttir, fjármála- og mannauðsstjóri Sagafilm segir að hægt sé að breyta því og það reyni þau hjá Sagafilm að gera. „Núna í maí fórum við í gegnum jafnlaunavottunina og ég held að það sé ansi stórt skref í réttu áttina. Við erum mikið að hugsa um þetta, þessa breytingu. Við erum til dæmis 28 sem vinnum hjá Sagafilm, 14 konur og 14 karlmenn.“

Eðlilegra að kynjahlutföllin séu jöfn

Sagafilm setti sér jafnréttisstefnu fyrir einu og hálfu ári. Þar starfa nú átta konur og níu karlar sem leikstjórar. Meðal handritshöfunda eru 11 konur og 10 karlar. Hilmar Sigurðsson, forstjóri Sagafilm, segir að jafnréttismálin séu mjög mikilvæg. „Að segja sögur þar sem konur koma fyrir og eru í lykilhlutverkum, það skiptir máli. Við finnum það hjá okkur, í öllu okkar starfi, að það gengur betur og svo er þetta alltaf skemmtilegra og eðlilegra. En það er alltaf hægt að gera betur.“

Hilmar segir að það hafi tekið svolítið á að fara í gegnum það ferli sem jafnlaunavottunin er. „En hingað erum við komin einu og hálfu ári síðar, með stefnuna okkar að leiðarljósi. Við erum þokkalega sátt með það og þykir vænt um þessi hvatningarverðlaun á þeirri vegferð.“

Mynd með færslu
 Mynd:

Mikil gerjun eftir #metoo-byltinguna

Metoo-hreyfingin fór af stað fyrir rúmu ári þegar New York Times fjallaði um kynferðisbrot Hollywood-kvikmyndaframleiðandans Harveys Weinsteins. Í kjölfarið sagði fjöldi fólks um allan heim frá áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Hilmar segir að töluverðar breytingar hafi orðið í greininni á heimsvísu síðan þá. „Það er heil mikil gerjun í heildina eftir að metoo kom fram en þetta hreyfist hægar heldur en margur vildi sjá. Það er þá fyrirtækja eins og okkar að fara í framvarðarsveitina og leiða þetta og vonandi verður það til að hvetja aðra til að gera það sama.“

 

Dómnefndina skipuðu þau Helga Lára Haarde, skipuð af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Þorsteinn Kári Jónsson frá Festu, Arnar Gíslasson frá Háskóla Íslands og Bergþóra Halldórsdóttir frá Samtökum atvinnulífsins.

Í áliti dómnefndar segir að árangur Sagafilm í jafnréttismálum beri þess merki að stjórnendur hafi sett skýr markmið og óhikað hrundið þeim í framkvæmd. Saga Film starfi í geira þar sem karlar hafi verið ráðandi og því nauðsynlegt að hafa einbeittan vilja til að breyta því. „Meðvitaðar ákvarðanir hefur þurft til að tefla fram kvenkyns leikstjórum og handritshöfundum. Ákvarðanir hafa síðan áhrif á framleiðslu fyrirtækisins þar sem glöggt má sjá að hlutur kynjanna hefur jafnast og konur fengið aukið vægi.“ Sögurnar sem sagðar séu spegli þannig raunveruleikann betur en áður, að mati dómnefndar.

 

Tengdar fréttir

Jafnréttismál

Hvatningarverðlaun jafnréttismála til Vodafone