Sögur handa þeim sem eru að læra íslensku

Mynd: Una útgáfuhús / Una útgáfuhús

Sögur handa þeim sem eru að læra íslensku

14.01.2020 - 12:27

Höfundar

Árstíðir heitir safn rúmlega hundrað örsagna sem Karítas Hrundar Pálsdóttir sendi frá sér í vikunni. Undirtitill safnsins er „sögur á einföldu máli“ sem vísar til þess að sögurnar eru sérstaklega hugsaðar handa þeim sem eru að læra íslensku og þætti gott að hafa aðgang að vitrænum og skemmtilegum textum á einföldu máli. Taka skal fram að sögurnar eru ekki síður áhugaverðar og skemmtilegar aflestrar fyrir þá sem námu íslenskuna við móðurkné.

Karítas Hrundar Pálsdóttir lauk árið 2017 BA-námi í íslensku og fjallaði lokaritgerð hennar um málfræðikennslu íslensku sem annars máls á Íslandi og japönsku sem annars máls í Japan. Tveimur árum síðar lauk Karítas svo meistaranámi í ritlist með safni 105 örsagna sem ætlaðar eru þeim sem leggja stund á nám í íslensku sem annað mál. Í lýsingu verkefnsins er talað um áhugaverðar sögur sem nýtast bæði til kennslu og yndislesturs. 

Ekki er ólíklegt að einhverjar sagnanna, jafnvel allar, úr útskriftarverkefninu séu nú samankomnar í nýútkomnu örsagnasafni Karítasar Árstíðir, sem kom út í síðstu viku hjá Unu útgáfuhúsi. Hér að ofan má heyra Karítas segja frá þessu fyrsta verki sínu og lesa tvær sagnanna í útgáfuhófinu sem haldið var í síðstu viku.

Titill bókarinnar Árstíðir vísar til kaflaskiptingar bókarinnar en eins og Íslendingar vita skipta árstíðirnar miklu máli fyrir það með hvaða hætti lífinu í landinu er lifað enda segir á baksíðu bókarinnar: „Sögurnar varpa ljósi á margbreytileika mannlífsins og veita innsýn í gang árstíðanna í landi ljóss og myrkurs.“

Eliza Reid ritar formála að bókinni sem er afskaplega vel og frumlega úr garði gerð en hönnuðir útlits voru þau Björn Loki Björnsson og Elsa Jónsdóttir