Sögur af andláti norðurljósanna stórlega ýktar

Mynd: Flickr / RÚV

Sögur af andláti norðurljósanna stórlega ýktar

28.01.2016 - 10:44

Höfundar

Samfélaginu er kunnugt um að einhverjir standi í þeirri meiningu að innan tíðar hverfi norðurljósin og sjáist ekki í nokkur ár. Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, leiðrétti þann misskilning og notaði tækifærið og sagði okkur undan og ofan af þessu tilkomumikla fyrirbæri, í Samfélaginu á Rás 1.

Virknin er sveiflukennd

„Norðurljós ganga alltaf í sveiflum. Sveiflan er tengd því sem við köllum sólblettasveiflunni á sólinni, þ.e.a.s. sólin er misvirk og nær hámarki á 11 ára fresti eða svo, og lágmarki þess á milli. Það gerist síðan alltaf í kringum lágmarkið að sólin sendir frá sér aðeins minna af rafagnarstraumum, eða sólvindi, sem býr til norðurljósin. Þannig að þegar sólin er í lágmarki er vindurinn ekki jafn hvass og þá minnkar pínu norðurljósavirknin — en það sjást samt sem áður norðurljós upp á næstum hvern einasta dag á Íslandi og þeim slóðum sem norðurljós eru tíðust, alla sólbleittasveifluna, öll þessi 11 ár. Svo eykst virknin aftur og svo minnkar hún á ný. Þetta er bara svona sveiflukennt.“

Góðir norðurljósavetur framundan

„Þegar sólin er í hámarki í virkni sinni, sem var árið 2014 — í sirka eitt til þrjú ár eftir sólblettahámarkið er virknin í norðurljósunum mest,“ segir Sævar og bendir á að þessi, næsti og þarnæsti vetur ættu að vera með mjög góðir norðurljósavetur. Eftir það fer virknin aðeins að minnka. „En þegar við tölum um að hún minnki aðeins, þá erum við samt sem áður að tala um að tvisvar í viku eða þrisvar í mánuði eða hvað það er, fáum við rosalega flotta sýningar, en þess á milli fáum við þessa klassísku boga sem við sjáum eiginlega allt árið hvort sem er.“

Sævar rifjar upp að árið 2009 hafi sólvindurinn verið einstaklega rólegur og þá hafi lítið verið um áberandi norðurljós. „Samt sem áður sáum við norðurljós reglulega. En bara ekki jafn mikið dansandi og litrík og krötftug og þau geta verið þegar sólin er í hámarki.“

Ekki kröftugri þegar kalt er

Það er útbreiddur misskilningur að norðurljós séu sérstaklega kröftug þegar kalt er í veðri, oftast í janúar og febrúar. „Norðurljós sjást oftast á haustin, það er svona besti tíminn. Þau sjást eiginlega best í kringum jafndægur. Þannig að lok ágúst, september, október eru oftast mjög góðir mánuðir. Og sömuleiðis mars og apríl,“ segir Sævar.

„Í kringum þennan tíma eru þau tvöfalt algengari en í kringum sólstöður. Þannig að desember og janúar er eiginlega versti tíminn, minnstar líkur á því að þú sjáir norðurljós þá.“