
VR ákvað fyrir mánuði að auglýsa eftir sögum frá fólki á leigumarkaði um háa húsaleigur og samskipti þess við leigufélög og leigusala. Markmiðið var að fá frekari upplýsingar og gögn um raunverulega stöðu fólks á leigumarkaði.
„Sko, við erum búin að skrásetja inn í kerfið hjá okkur, við erum komin með svona um og yfir 50 mál og það er meira að bætast við.“
Þau leigufélög sem nefnd eru í sögum fólksins eru Almenna leigufélagið, Heimavellir, Íbúðalánasjóður, nokkur smærri leigufélög og einstaklingar sem leigja út íbúðir. Sögurnar koma alls staðar að af landinu.
Maður nokkur greiddi 115 þúsund krónur á mánuði í leigu á íbúð í eigu leigufélags. Á rúmlega ári hefur leigan verið hækkuð upp í 170 þúsund krónur.
Fjölskylda tók íbúð á leigu árið 2016 hjá leigufélagi og greiddi 225 þúsund á mánuði. Leigan var hækkuð um 25 þúsund í fyrra og í ár um aðrar 25 þúsund krónur og er nú 275 þúsund á mánuði.
Kona nokkur tók hús á leigu af leigufélagi árið 2010 og greiddi 200 þúsund krónur í leigu á mánuði. Í janúar 2017 var leigan orðin 270 þúsund. Nýlega fékk hún tilkynningu um að leigan yrði hækkuð í 400 til 450 þúsund krónur á mánuði.
„Við erum að sjá þetta 50 til 70% hækkun á leigu á rúmlega ári þar sem að fólk var að fá tilkynningar um hækkun í mars 2017 og svo aftur í mars, apríl 2018, um tug þúsunda og tug prósenta hækkanir.“
Fimmtíu þúsund manns eru á leigumarkaði á Íslandi. Í nýrri skýrslu frá Íbúðalánasjóði kemur fram að leiguverð hafi hækkað um 82% frá 2011 en laun aðeins um 66%. Ragnar segir að þessi gögn séu orðin úrelt. Leiguverð hafi hækkað gríðarlega í mars, apríl og maí.
„Það er algerlega klárt mál að löggjafinn verður að koma hérna inn í. Þarna hefur fólk enga valkosti annað en að enda á götunni ef það tekur ekki afarkostum sem þeim er boðið upp á. Þetta er svo langt umfram allar vísitölur og rauninni allt velsæmi að maður getur ekki litið á þetta öðruvísi en fjárkúgun.“
VR hyggst nota sögurnar og upplýsingarnar til að reyna að hafa áhrif á stöðu mála hér á landi.
„Það sem við ætlum að gera við þessar upplýsingar er að beita okkur fyrir því að það verði sett regluverk til verndar fólki á leigumarkaði, að neytendavernd verði elfd og síðast en ekki síst að samfélagsleg vitund þessara félaga verði í orði og á borði.“