
Sögulegur dómur og Brexit hremmingar
Þetta er kjarni dómsins sem Hæstiréttur Breta kvað upp í morgun. Eins og heyra mátti, sagði lafði Hale að þingið hefði ekki verið sent heim, sú ráðstöfun ólögleg. Um það væru dómararnir ellefu einróma sammála. Forsætisráðherra braut lög, það hindraði þingið í að rækja lýðræðislega skyldu sína – og sú hindrun er ólögleg. Og þar með líka ólöglegt að ráðleggja drottningunni að senda þingið heim.
Ástæður forsætisráðherra fyrir þessari ráðstöfun skipta ekki máli, heldur áhrifin sem ráðstöfunin hafði.
Áhrifin gríðarleg
,,Áhrifin á grundvallarþætti lýðræðisins voru gríðarleg. Og ekki verið lögð fram nein réttlæting þess að taka ákvörðun, sem hefur slíkar afleiðingar,“ sagði lafði Hale.
Þar með var brotið blað í breskri réttarsögu. Dómurinn skapar veigamikið fordæmi. Og köngurlóarnælan í barmi lafði Hale er orðin tískufyrirbæri, þegar farið að selja boli með mynd af nælunni.
Skýr og einróma niðurstaða
Niðurstaðan gæti ekki verið skýrari: þetta var ekki venjulegt þinghlé; áhrifin á grundvallarþætti lýðræðins voru gríðarleg; ráðstöfun forsætisráðherra dæmd dauð og ógild, rétt eins og autt blað hefði verið lagt fyrir þingið, sagði lafðin og þingið því órofið.
Þingstörf halda nú áfram
Við fjölmiðla sagði John Bercow þingforseti dóminn ótvíræðan. Lögbrot að hindra þingið í að gegna skyldum sínum. Bercow boðaði að þingið héldi áfram störfum, ekki kallað saman aftur því það hefði verið ólöglegt að senda það heim; þingstörf héldu bara áfram.
Bercow hnykkti á þessu því það er lykilatriði að þingstörf halda áfram; þingrof fyrir stefnuræðu felur í sér að mál í meðferð þingsins detta upp fyrir. Og þau komast ekki aftur á dagskrá nema vera formlega sett á dagskrá.
Krefjast afsagnar forsætisráðherra
Ýmsir krefjast nú afsagnar forsætisráðherra. Þá einnig Jeremy Corbyn leiðtogi Verkamannaflokksins:
Corbyn sagði þetta úr ræðustóli á yfirstandandi þingi Verkamannaflokksins. Átökin þar falla nú í skuggann af fréttunum úr Hæstarétti. Orð Corbyns eru þó heldur máttlítil. Hið rökrétta væri að hann legði fram vantraust á stjórnina. En stjórnarandstaðan treystir Corbyn ekki til að taka forystuna og það þrengir stöðuna verulega.
Forsætisráðherra virðir dóminn en leitar Brexitleiða
Boris Johnson forsætisráðherra sagði í viðtali eftir dóminn að auðvitað færi hann að lögum þó hann væri ósammála dómnum sem hann tengdi beint við útgöngu Breta úr ESB. Ýmsir reyndu að hindra útgöngu. Þingið vildi ekki láta senda sig heim en vildi heldur ekki kosningar og stjórnin yrði nú að hnika málum áfram.
Johnson staðfastur á útgöngu 31. október
Þó málið sjálft hafi ekki snúist um Brexit þá eru stuðningsmenn Boris Johnson sama sinnis og hann, málinu ætlað að hindra útgönguna sem hann hamrar á að verði 31. október.
Ljóst fyrir dóminn að samningslaus útganga er úr sögunni
Það var þó ljóst fyrir dóminn að án samnings yrði engin útganga þann dag, þrátt fyrir fullyrðingar Johnson um útöngu sama hvað. Hið bitra fyrir forsætiráðherra er að það var engin nauðsyn að senda þingið heim. Og hann gat ekki komið í veg fyrir þingið hefur hindrað samningslausa útgöngu 31. október. Heimsendingin var storkun, forsætisráðherra lagði mikið undir og hann tapaði. Ráðin um heimsendingu eru talin brugguð af umdeildum ráðgjafa Johnsons, Dominic Cummings, sem ýmsum finnst að nú ætti að reka.
Reynt að spinna dóminn í sigursögu fyrir kosningar
Það verða kosningar hér á næstunni, óljóst hvenær. Þá má vel vera að forsætisráðherra takist að snúa dómnum upp í sigursögu. Líka af því það er leiðtogi stjórnarandstöðunnar er umdeildur, einnig í eiginn flokki.