Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sofið á verðinum gagnvart skriðuföllum

23.08.2019 - 19:59
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Stórfelld skriðuföll þarf að taka alvarlega, segir jarðfræðingur sem kallar eftir auknu fé til að efla rannsóknir og vöktun. Íslendingar hafi sofið á verðinum gagnvart hugsanlegum bergskriðum, eins og í Reynisfjöru.

Stórfelld skriðuföll á undanförnum árum, við Hítardal, Öskju og Reynisfjöru eru afleiðing af breytingum í veðurfari, að mati Þorsteins Sæmundssonar, jarðfræðings. 

„Það eru gríðarlega miklir og stórir efnismassar sem eru á hreyfingu og eru að hrynja. Þetta er áhyggjuefni sem við þurfum að taka svolítið alvarlega,“ segir Þorsteinn.  „Við þurfum að stórefla rannsóknir og þá í kjölfarið vöktun á hlíðum og sér í lagi þar sem mikið er af fólki sem að safnast saman eins og t.d. í Reynisfjöru. Þetta tel ég að ætti að vera núna forgangsmál.“

Mikilvægt sé að greina hvar hættan er. „Við þurfum bæði að fá fé inn í háskólann og einnig inn á Veðurstofu til þess að fylgjast með þessu. Við höfum verið sofandi á síðustu áratugum gagnvart þessu.“

Hlíð við Þórsmörk á mikilli hreyfingu

Nýlega setti Jarðvísindastofnun Háskólans mælistöð á bergskriðu við Tungnakvíslajökul, sem er skriðjökull sem gengur úr Mýrdalsjökli innan við Þórsmörk. Skriðan er talin hafa skriðið fram að meðaltali um tíu metra á ári á ellefu ára tímabili til ársins 2010. „Á síðustu fjórum til fimm árum þá virðist þetta vera jafnvel upp í sentímetra á dag, hálfur til sentímetra á dag, sem þetta er að hreyfast.“

Með mælitækjum sem Landhelgisgæslan flutti er hægt að fylgjast með skriðunni í rauntíma. Þannig er hægt að fylgjast með því hvort hreyfingin sé jöfn, tengd árstíðum, jarðskjálftum, úrkomu eða kvikuhreyfingum. „Þessi hlíð er búin að vera afmyndast þetta mikið á þetta mikið, yfir þetta langan tíma, og við höfum ekki verið að taka eftir því,“ segir Þorsteinn jafnframt.