Sófi er ekki bara sófi

Mynd: Brandon Giesbrecht / Flickr

Sófi er ekki bara sófi

14.09.2015 - 14:12

Höfundar

Þúsundir tonna af nothæfum húsgögnum eru urðuð á hverju ári — húsgögnum sem annars hefðu geta öðlast framhaldslíf á einn eða annan hátt. Stór hluti úrbótatækifæranna liggur á hönnunarstiginu.

Förgun nothæfra húsgagna var umfjöllunarefni Stefáns Gíslasonar í nýjasta pistli hans í Samfélaginu á Rás 1.

Verðmætum kastað á glæ

Á hverju ári henda Bretar rúmlega 300.000 tonnum af nothæfum húsgögnum og ef við gerum ráð fyrir svipuðu neyslumynstri hérna hjá okkur, er líklegt að við Íslendingar hendum um 1.500 tonnum af þessum varningi á hverju ári. Þetta þýðir ekki bara að álag á urðunarstaði landsins aukist að óþörfu, heldur er þarna verið að kasta verðmætum á glæ, hvort sem við horfum á það út frá peningalegu sjónarmiði einu og sér eða með tilliti til þverrandi auðlinda jarðar. Við framleiðslu á öllum þessum húsgögnum þurfti jú heil ósköp af efnum, vatni og orku, sem allt var tekið út af reikningi okkar hjá Móður Jörð.

Upplýsingarnar sem ég vísaði í hér að framan eru ættaðar úr skýrslu sem kom út í Bretlandi á dögunum undir yfirskriftinni Rearranging the Furniture, eða Tekið til í stofunni í afskaplega lauslegri íslenskri þýðingu. Í skýrslunni er að finna lýsingu á helstu þröskuldum í vegi aukinnar endurnotkunar húsgagna, en ofarlega á þeim lista er sú staðreynd að húsgögn eru of stór til að komast ofan í venjulegar endurvinnslutunnur og svo hitt að vinnusvæði starfsmanna úrgangsfyrirtækja nær yfirleitt ekki nema að útidyrum húsa. Þess vegna eru húsgögn sem lokið hafa hlutverki sínu gjarnan skilin eftir utandyra, óvarin fyrir veðri og vindum, eða þá brotin niður til að auðvelda flutning á næstu gámastöð. Hvort tveggja spillir möguleikunum á betri nýtingu húsgagna í anda hringrásarhagkerfisins.

Betri hönnun, betri nýting

David Palmer-Jones, framkvæmdastjóri endurvinnslu- og endurnýtingarsviðs Bretlandsdeildar SUEZ, sem er annar aðilinn á bak við fyrrnefnda skýrslu, benti á það í viðtali í tilefni af útkomu skýrslunnar að þrátt fyrir að endurnotkun sé ofar í úrgangsþríhyrningnum en endurvinnsla, þá fái endurnotkun ekki nærri eins mikla athygli þegar á hólminn er komið. Gríðarleg tækifæri liggi í því að nýta betur þá hluti sem við hendum í dag, en til þess þurfi samræmdar aðgerðir hönnuða, úrgangsfyrirtækja og þeirra sem móta stefnuna í samfélaginu. Sé litið almennt á þá hluti sem verða að grófum úrgangi, liggi reyndar 80% af úrbótatækifærunum í hönnunarstiginu.

Höfundar fyrrnefndrar skýrslu kalla eftir markvissum aðgerðum framleiðenda og sveitarfélaga til að leysa þennan vanda, því vissulega hlýtur það að teljast vandamál að þúsundir tonna af nothæfum húsgögnum séu urðuð á hverju ári. Í skýrslunni er lagt til að sveitarstjórnir fari að líta á sig sem vörslumenn auðlinda fremur en úrgangsmeðhöndlunarstofnanir og að sveitarstjórnir og framleiðendur taki upp náið samstarf um kerfi sem gerir það mögulegt að safna grófum úrgangi og koma honum aftur til framleiðenda til endurnotkunar. Sem dæmi um aðgerðir sem væru til þess fallnar að bjarga einhverju af þessum auðlindum frá glötun má nefna hærri urðunarskatta og jafnvel algjört bann við urðun á húsgögnum og öðrum grófum úrgangi. Með þessu móti væri ekki aðeins unnið gegn óþarfri urðun, heldur mætti einnig nota fjármagn sem fengist með þessum hætti til að kosta söfnun til endurnotkunar og aðrar úrgangsforvarnir, að því er fram kemur í skýrslunni.

Í skýrslunni er á það bent að aukin endurnotkun sé ekki bara góð fyrir umhverfið, heldur hafi hún einnig jákvæð áhrif á efnahag, bæði neytenda og framleiðenda. Með samvinnu við þá sem safna grófum úrgangi og við þá sem undirbúa hluti fyrir endurnotkun geti framleiðendur dregið úr kostnaði og stuðlað að sköpun nýrra atvinnutækifæra. Í þessu sambandi má nefna að samtökin WRAP, eða Waste & Resources Action Programme, hafa reiknað út að ef Evrópa í heild sinni myndi umbreyta hagkerfum sínum í hringrásarhagkerfi myndu verða til þrjár milljónir nýrra starfa fram til ársins 2030.

Sjö hollráð til sófakaupenda

Í bloggfærslu aðstandenda margumræddrar skýrslu eru m.a. dregin saman sjö góð ráð fyrir fólk sem vill koma í veg fyrir að sófinn þeirra endi aldur sinn á urðunarstað.

Fyrsta hollráðið er að kaupa dýrasta sófann sem maður hefur ráð á, eða þá að kaupa notaðan sófa. Verðið gefi nefnilega oftast einhverja hugmynd um gæðin – og gæði og ending sé nokkurn veginn það sama. Því lengur sem sófinn endist manni, þeim mun lengur forðist hann urðunarstaðinn.

Í öðru lagi ættu sófakaupendur að gerast meðvitaðir neytendur og spyrja fleiri spurninga. Því fleiri sem spyrja, þeim mun meira verði framleiðendur og seljendur að hlusta. Ekki vera feimin við að spyrja hversu lengi megi reikna með að sófinn endist, hvort hann hafi verið hannaður með viðgerðir í huga, hvaðan efnið í hann komi og þar fram eftir götunum. Jafnvel þótt ef till verði fátt um svör í fyrstu sé líklegt að spurningarnar komist til réttra aðila með tímanum og hafi þannig sín áhrif.

Þriðja hollráðið til sófakaupenda er að velta fyrir sér endalokum sófans um leið og hann er keyptur. Skyldi áklæðið slitna fljótt, erum við kannski fórnarlömb tískunnar eða er sófinn tilbúinn í langtímasamband? Er hægt að taka áklæðið af og þvo það og er einhver ábyrgð tekin á gæðum vörunnar? Svo má heldur ekki gleyma að geyma nótuna.

Í fjórða lagi ætti ekki að klippa af sófanum miða með upplýsingum um eldvarnir eða annað sem máli skiptir. Ef þessir miðar eru enn til staðar þegar sófinn hefur lokið hlutverki sínu er líklegra en ella að hann öðlist framhaldslíf.

Í fimmta lagi ætti maður að reyna að selja sófann eða gefa á netinu að notkun lokinni. Þetta taki ekki mikið lengri tíma en að keyra gripinn á næsta söfnunarstað og auki auk þess líkurnar á raunverulegu framhaldslífi.

Í sjötta lagi er um að gera að bólstra sófann upp á nýtt þegar hann er orðinn sjúskaður. Þetta sé oftast hægt ef grindin er traust og gerð úr gagnheilum viði. Kannski geti einhver í næsta nágrenni haft atvinnu af þessu, en þó sé jafnvel enn betra að fara á námskeið til að læra að gera þetta sjálfur.

Í sjöunda lagi ætti maður svo að styðja við þá viðleitni sem fyrir er til að safna notuðum húsgögnum og koma þeim í endurnotkun. Á Íslandi gæti þetta átt við um Góða hirðinn og nytjamarkaði sem starfræktir eru á vegum ýmissra samtaka víða um land.

Hvað sem við gerum skulum við vera minnug þess að sófi er ekki bara sófi, heldur dálítið safn af auðlindum sem er bæði hagkvæmt og nauðsynlegt að nýta sem best. Nothæf húsgögn eiga ekkert erindi á urðunarstaði!