„Social distancing“ verður samskiptafjarlægð

Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot - Vikan með Gísla Marteini

„Social distancing“ verður samskiptafjarlægð

23.03.2020 - 11:58

Höfundar

Fólk þarf að gæta þess að halda ákveðinni fjarlægð á milli sín til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. En hvað eigum við að kalla þessa fjarlægð?

Hugtakið „social distancing“ hefur verið mikið í umræðunni undanfarnar vikur og er þar átt við fjarlægðina sem mælst er til þess að sé á milli fólks í almannarými á meðan reynt er að hemja útbreiðslu kórónuveirunnar.

Nú hefur hugtakið fengið íslenska þýðingu. Í málræktarpistli Jóhannesar Bjarna Sigtryggssonar rannsóknarlektors á vef Stofnunar Árna Magnússonar er höfð eftir Jóhanni Heiðari Jóhannssyni, formanni Orðanefndar Læknafélags Íslands, tillaga um að hugtakið verið kallað samskiptafjarlægð

Jóhannes tekur dæmi um notkun þess í setningu: Landlæknir leggur til að allir hlíti reglum um samskiptafjarlægð. Annað dæmi væri: Samskiptafjarlægð forseta Íslands og Gísla Marteins í Vikunni á föstudagskvöld var til fyrirmyndar.

Í nýrri tilkynningu frá yfirvöldum um hertar takmarkanir á samkomum kemur fram að hvar sem fólk kemur saman og í allri starfsemi skuli tryggt að hægt sé að hafa að minnsta kosti tvo metra á milli einstaklinga. Þarna er átt við samskiptafjarlægð.

Tengdar fréttir

Innlent

Hert samkomubann: Ekki fleiri en 20 mega koma saman