Sochi að loknum vetrarólympíuleikum

Mynd með færslu
 Mynd:

Sochi að loknum vetrarólympíuleikum

06.03.2014 - 14:54
Stefán Gíslason leit um öxl í pistli sínum í dag og fjallaði um áhrif leikanna á umhverfið. Pistilinn má líka lesa hér að neðan.


 

Um miðjan janúar gerðum við Ólympíuleikana í Sochi að umtalsefni hér í Sjónmáli, enda var þá þegar ljóst að leikanna yrði minnst fyrir fleira en íþróttaafrekin sem þar yrðu unnin. Í því sambandi var mest rætt um réttindi samkynhneigðra í Rússlandi Pútíns, eða öllu heldur réttindaleysi, en margir töldu leikana fela í sér upplagt tækifæri til að þrýsta á um úrbætur í þeim efnum. Hérlendis voru líka sagðar fréttir af flækingshundum sem teknir voru af lífi til að hressa upp á ímynd Ólympíuþorpsins, að ógleymdum upplýsingum um útsjónarsemi rússneskra athafnamanna sem virðast hafa náð að soga allt að helmingi stofnkostnaðarins vegna leikanna ofan í eigin vasa, þ.e.a.s. fjárhæð upp á um það bil 3.000 milljarða íslenskra króna. Hins vegar hefur frekar lítið heyrst um umhverfislegar hliðarverkanir þessara dýrustu Ólympíuleika mannkynssögunnar, svo sem þann þversagnarkennda möguleika að leikarnir hafi valdið endanlegum útdauða persneska hlébarðans, sem var einmitt eitt af einkennisdýrum leikanna.

 Þegar litið er um öxl og rýnt í fyrirliggjandi upplýsingar um áhrif leikanna í Sochi á umhverfið, er fróðlegt að staldra við samantekt samtakanna WWF í Rússlandi. Þar eru talin upp nokkur helstu mistökin sem gerð voru í Sochi frá umhverfislegu sjónarmiði. Eins og þar kemur fram voru stærstu mistökin líklega gerð áður en fyrsta skóflustungan var tekin. Þessi stóru mistök fólust í því að halda leikana á vitlausum stað. Af öllu því stóra landsvæði sem Rússland hefur yfir að ráða var sem sagt ákveðið að halda leikana á svæði sem tilheyrir Sochi þjóðgarðinum, þ.e.a.s. svæði sem nýtur sérstakrar verndar og er að hluta til á Heimsminjaskrá UNESCO. Ekki bætti úr skák að Sochi hentar afar illa til vetraríþrótta, enda meðalhitinn í borginni um 10 gráður í plús köldustu mánuði ársins. Einhver orðaði það svo að menn hefðu allt eins getað byggt snjóhús fyrir ferðamenn á Ibiza.

 Eftir að ákvörðunin um að halda leikana í Sochi hafði verið tekin tóku rússnesk stjórnvöld til við að undirbúa veisluna. Þetta var m.a. gert með sérstakri lagabreytingu sem samþykkt var árið 2006 og gerði það mögulegt að halda stóra íþróttaviðburði á náttúruverndarsvæðum, en slíkt hafði áður verið með öllu óheimilt. Um svipað leyti voru afnumin ákvæði um umhverfiseftirlit með byggingaframkvæmdum. Í árslok 2009 samþykkti svo Dúman, þ.e.a.s. efri deild rússneska þingsins, breytingar á skógarlöggjöfinni þar sem heimilað var að fella sjaldgæfar tegundir trjáa og runna til að rýma fyrir uppbyggingu íþróttamannvirkja. Í framhaldi af því voru felldir rúmlega 3.000 hektarar af ævafornum skógi þar sem meðal annars óx ýviður og boxviður, og í leiðinni voru eyðilagðir hvíldarstaðir og farleiðir dádýra og bjarndýra. Og skógur er ekki bara tré og skjól fyrir dýr, heldur bindur skógurinn jarðveg. Skógarhögginu í hlíðunum kringum Sochi fylgdu skriðuföll og þar með algjör eyðilegging á hluta svæðisins.

 Áætlað hefur verið að dalurinn sem áin Mzymta við Sochi rennur um geti í mesta lagi tekið við um 30 þúsund ferðamönnum á ári. Mannvirkin sem byggð voru fyrir Ólympíuleikana eru hins vegar hönnuð fyrir 100-120 þúsund manns. Það eitt segir sína sögu um hversu langt þetta verkefni hefur farið yfir þolmörk svæðisins. Reyndar hefur verið á það bent að í hlíðum dalsins hafi ekki einu sinni verið pláss fyrir allar skíðabrekkurnar sem þar voru byggðar.

 Talsvert hefur verið rætt um gríðarlega uppbyggingu járnbrauta og vegakerfis í nágrenni Sochi. WWF heldur því fram að þar hafi verið byggt langt umfram þarfir og að þessar tilteknu framkvæmdir hafi gjöreyðilagt búsvæði laxfiska í Mzymta ánni, en þar eru hrygningarstöðvar 20% af öllum laxi Svartahafsins, sem er í þokkabót á lista alþjóðanáttúruverndarsamtakanna IUCN yfir tegundir í útrýmingarhættu. Svo er að sjá sem engar úttektir hafi verið gerðar á stöðu umhverfismála á svæðinu áður en framkvæmdir hófust og að ekki hafi heldur verið reynt að fylgjast með áhrifum framkvæmdanna á lífríkið á svæðinu. Af þessum sökum verður líka mjög erfitt að meta heildartjónið eftirá.

 Nú er eðlilegt að spurt sé hvort rússneskum stjórnvöldum hafi liðist að ganga um náttúruna á Sochisvæðinu með þeim hætti sem raun ber vitni. Ólympíuleikarnir eru jú ekkert einkamál Rússa, heldur er þetta alþjóðlegur viðburður þar sem Alþjóðaólympíunefndin og fleiri alþjóðleg samtök og stofnanir koma við sögu. Fljótt á litið verður ekki séð að Alþjóðaólympíunefndin hafi gert neitt til að sporna við eyðileggingunni sem vissulega átti sér stað, og það þrátt fyrir að nefndin hafi látið mikið til sín taka í umhverfismálum íþróttahreyfingarinnar og gefið út vandaðar leiðbeiningar um græna íþróttaviðburði. Hins vegar fór Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna UNEP ítrekað fram á að tilteknar úrbætur yrðu gerðar. Sumt af því var framkvæmt. Til dæmis var bobsleðabraut og nokkrum öðrum mannvirkjum valinn annar og skaðminni staður en upphaflega var áformað.

 Ýmsir urðu til þess í aðdraganda leikanna í Sochi og meðan á þeim stóð, að gagnrýna framkvæmdina vegna hinna miklu neikvæðu áhrifa sem hún hefði á umhverfi og samfélag. Þeir sem létu mest á sér bera á þessu sviði heimafyrir voru einfaldlega teknir úr umferð. Í því sambandi hefur handtaka og fangelsun Evgenys Vitishko, talsmanns Umhverfisvaktar Norður-Kákasus, vakið mesta athygli. Hann var upphaflega dæmdur í þriggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir jól fyrir að hafa skemmt girðingu utan um sumarhöll landsstjórans á svæðinu, sem byggð var á friðuðu svæði í Sochi þjóðgarðinum. Þann 12. febrúar var dómnum síðan breytt í þriggja ára nauðungarvinnu, einmitt sama daginn og Umhverfisvaktin ætlaði að birta skýrslu um skaðann sem Ólympíuleikarnir hefðu valdið. Í millitíðinni hafði Evgeny reyndar verið stungið inn í 15 daga fyrir að hafa blótað á biðstöð strætisvagna í Sochi. Slíkt er auðvitað alvarlegur glæpur!

 Staða umhverfismála í tengslum við leikana í Sochi er jafnvel enn meira sláandi en ella þegar haft er í huga að leikarnir voru kynntir sem „grænir leikar“ þar sem enginn úrgangur myndi falla til. Eftir stendur gríðarleg eyðilegging á viðkvæmu náttúrusvæði, ónýt vatnsból og ótrúlegt magn úrgangs á a.m.k. 50 ólöglegum sorphaugum í nágrenninu. Til að gefa einhverja hugmynd um úrgangsmagnið hefur UNEP áætlað að á árinu 2009 einu og sér hafi fallið þarna til um þrír og hálfur milljarður tonna af byggingarúrgangi.

 Réttindi samkynhneigðra voru sem sagt ekki það eina sem var í ólagi í Sochi. Það má hins vegar geta sér þess til að athyglin sem þetta tiltekna mál fékk hafi ekki hentað rússneskum stjórnvöldum sérlega illa.