Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Snýst um heiðarleika og pólítíska ábyrgð“

03.04.2016 - 13:50
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - RÚV
Það hvort stjórnmálamenn eigi að gera skýra grein fyrir hagsmunum – hvað þá eign í aflandsfélögum – er löngu útrætt mál, nema á Íslandi. Stjórnmálamenn eiga ekki að hafa val um það hvort þeir hafi þá skyldu við kjósendur sína eða ekki. Þetta segir Vilhjálmur Árnason, stjórnarformaður Siðfræðistofnunar og einn höfunda Rannsóknarskýrslunnar. Segir þrönga lagahyggju áranna fyrir hrun einkenna varnir stjórnmálamanna vegna skattagagna.

Þarna á ekkert að selja stjórnmálamönnum sjálfdæmi um það hvort þeir hafi skyldu eða ekki, þetta er að mínu mati spurning um heiðarleika og í rauninni sko pólitíska ábyrgð að gera borgurum grein fyrir því í hvaða stöðu þeir eru,“ sagði Vilhjálmur Árnason, heimspekingur og einn höfunda siðfræðikafla Rannsóknarskýrslunnar. 

Kunnugleg viðbrögð

Vilhjálmur segir að eitt af meginefnum siðfræðihluta rannsóknarskýrslu Alþingis hafi verið þröng lagahyggja áranna fyrir hrun. Þar sem lög, viðmið, reglur og siðferði voru toguð og teygð, burtséð frá upphaflegum tilgangi þeirra. Að mörgu leyti sýnist honum stjórnmálamenn bregðast líkt við þegar þeir telja sig ekki hafa þurft að gera grein fyrir hagsmunum sínum, til dæmis tengslum við aflandsfélög og hagsmuni þeirra.

Markmiðin ekki túlkunaratriði

„Stjórnmálamaður, sem ætlar, sem á að njóta trausts og ganga af trúverðugleika fram fyrir hönd þjóðar sinnar, hann á ekki að setja sig í stöðu sakamannsins sem segir: það er allt í lagi hvað ég geri uns sekt er sönnuð,“ segir Vilhjálmur sem leggur áherslu á að siðareglur og viðmið um skráningu hagsmuna kjörinna fulltrúa eigi ekki að túlka á þrengsta mögulega máta – markmiðið sé alveg skýrt. 

Viðbrögðin vonbrigði

„Og það er kannski það sem mér finnst verst í þessu máli það eru viðbrögðin. Að vera með þessi bolabrögð og undanbrögð og kenna um þeim sem spyr,“ segir Vilhjálmur sem telur að opinberun upplýsinga um eignir kjörinna fulltrúa og fleira fólks í skattaskjólum geti verið ögurstund fyrir íslenskt samfélag. Nú reyni á hvort þjóðin hafi dregið einhvern lærdóm af því uppgjöri sem fór fram eftir Hrun. Sá lærdómur snúist um annað og meira en hvort einhver axli ábyrgð eða afsagnir verði, heldur hvernig samfélaginu gangi að draga lærdóm af málum sem þessum. Þar sé enn nokkuð í land.

„Við erum að ræða held ég hér sumpart hluti sem eru löngu afgreiddir svona í pólitískri menningu nágrannalanda okkar. Spurningar um að gera grein fyrir hagsmunum þegar maður kemur að mikilvægum ákvörðunum. Fólk sem er að gegna svona mikilvægum trúnaðarstörfum fyrir almenning – ráðherrastörfum, starfi leiðtoga þjóðarinnar – á ekki að koma sér í þá stöðu að vera með fé í skattaskjólum nema þá að almenningur viti af því.“