Snýst um að þau axli ábyrgð, segir Unnsteinn

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Þetta snýst bara um að þau taki ábyrgð á að halda svona stóra tónleikahátíð," segir Unnsteinn Manúel Stefánsson, söngvari hljómsveitarinnar Retro Stefson um ákvörðun fimm hljómsveita að koma ekki fram á Þjóðhátíð nema skýr stefnubreyting komi frá bæjaryfirvöldum.

„Ef að bæði Stígamót og Landsspítalinn setji spurningamerki við þessi vinnubrögð þá hlýtur eitthvað að vera að,“ segir Unnsteinn í samtali við Síðdegisútvarpið.

Síminn hefur hringt látlaust hjá Unnsteini Manúel frá því að hljómsveitirnar Retro Stefson, Úlfur Úlfur, Agent Fresco, Emmsjé Gauti og Sturla Atlas sendu frá sér yfirlýsinguna um að þær ætluðu ekki að mæta á Þjóðhátíð án skýrrar stefnubreytingar frá bæjaryfirvöldum.

„Það er nett vandræðalegt að fara á svið, vitandi það að bæjaryfirvöld, lögreglustjóri og þjóðhátíðarnefnd séu ekki að gera allt sem í þeirra valdi stendur koma í veg fyrir kynferðisafbrot. Það hefur lengi loðað við þessa hátíð að svona hræðilegir atburðir fari fram á þessu svæði," segir Unnsteinn Manúel í samtali við Síðdegisútvarpið.

Hann segist enn ekki hafa fengið viðbrögð frá bæjaryfirvöldum í Vestmannaeyjum. Unnsteinn segir meðvirkni hafa yfirhöndina í þessu máli. „Þau hafa því miður ekki tæklað umræðuna vel, lögreglustjórinn eða bæjarstjórinn. Lögreglustjórinn í skjóli bæjarstjórans þannig að ef þau geta ekki komið til móts við okkur og sýnt fram á að þau ætla að gera eitthvað í þessu þá treystum við okkur ekki til að spila þarna," segir Unnsteinn Manúel. 

Hann segir þetta snúast um að taka ábyrgð. „Það er oft verið að verja heiður bæjarins frekar mikið og þau eru líka oft að stilla þessu upp sem einhvers konar svona stríði á milli okkar „lattelepjandi liðsins" hérna í 101 og svo Vestmannaeyinga. Þetta er ekki það. Þetta snýst bara um að þau taki ábyrgð á að halda svona stóra tónleikahátíð," segir Unnsteinn Manúel. 

„Við vorum að spila fyrir tveimur árum og það hófust slagsmál á svæðinu og við hættum að spila og báðum fólk um að hætta að slást. Þetta er ekkert ósvipað. Það er ekki gaman að flytja list sína undir þessum formerkjum."  

Hrefna Rós Matthíasdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi