Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Snýst ekki um málefni heldur persónur

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Theódóra S. Þorsteinsdóttir, oddviti BF Viðreisnar í Kópavogi, segist telja að andstaða þriggja bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við áframhaldandi samstarf í bæjarstjórn snúist ekki um málefni, heldur um persónur.

Þrír bæjarfulltrúar úr röðum Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi lýstu yfir andstöðu við að starfa með BF Viðreisn í meirihluta, en Sjálfstæðisflokkurinn myndaði meirihluta með Bjartri Framtíð eftir síðustu kosningar. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins funda í dag um hvað gera skuli í meirihlutaviðræðum.

Theódóra ræddi við Morgunútvarpið á Rás tvö í morgun. „Við erum búin að uppskera og erum að fara að uppskera ríkulega hérna í Kópavoginum, það eru fjölmörg verkefni sem við erum búin að vera með í undirbúningi og eru að raungerast núna. Þess vegna er þetta svolítið fúlt að málefnin eru ekki að trufla, þetta eru persónur,“ segir Theódóra.

Aðspurð hvort þetta snerist um hennar persónu sagðist hún ekki vilja eða geta svarað fyrir bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Theódóra tók sérstaklega fram að samstarf hennar við Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóra Kópavogs og Hjördísi Ýr Johnson bæjarfulltrúa hafi gengið með ágætum.

Eru þá alveg hreinar línur að þessi meirihluti heldur ekki áfram og líklegast að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur myndi meirihluta í Kópavogi? „Ég hef ekki fengið skýr svör um það. En miðað við hvernig þau fóru af stað gegn minni persónu í heila viku þá finnst mér ólíklegt að það breytist eitthvað.“