Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Snýst ekki um að fara í algjörar öfgar

Mynd: samsett mynd/ruv.is / samsett mynd/ruv.is

Snýst ekki um að fara í algjörar öfgar

01.11.2019 - 14:36

Höfundar

Margt að því sem fram kemur í kvikmyndinni The Game Changers er einföldun og þar má finna fullyrðingar sem eiga ekki við rök að styðjast, segir Elísabet Margeirsdóttir, næringafræðingur og ofurhlaupari. Skemmtanagildi myndarinnar er þó ótvírætt.

The Game Changers var birt á Netflix um miðjan september og hefur vakið mikið umtal. Fjallar hún í grófum dráttum um íþróttamenn sem nærast á plöntumiðuðu fæði og hvernig það hefur hjálpað þeim að ná hámarksárangri. Að baki myndinni eru stór nöfn í skemmtana- og íþróttaheiminum, svo sem Arnold Schwarzenegger, Jackie Chan, James Cameron og Novak Djokovic.

Kryddað til að búa til gott sjónvarp

Elísabet ræddi myndina og boðskap hennar í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Sagði hún myndina skemmtilega áhorfs en margt sem fram komi í henni sé einfaldað. „Sumt á við rök að styðjast en annað ekki. Myndin skiptist í marga minni hluta og sumt er bara gert til þess að krydda myndina með litlum tilraunum á íþróttamönnum til þess að búa til sjónvarp.“

Síðari hluti myndarinnar fjallar mikið um kosti plöntufæðis og segir Elísabet flest af því sem fram kemur óumdeilt. „En það kannski snýst ekki um að vera 100 prósent jurtaæta eða vegan heldur að meirihluti mataræðisins komi úr plönturíkinu - heilkorn, grænmeti, ávextir, baunir, linsur, hnetur, fræ. Að þetta sé meirihlutinn.“

Fjölbreytnin skiptir öllu

Hins vegar efast Elísabet um þær fullyrðingar sem fram koma í myndinni um að neysla dýraafurða hamli árangri íþróttafólks. „Það er ekki nægileg rök sem styðja við það. En þetta snýst kannski um hollustu og heilbrigði mataræðisins. Við vitum ekki alveg hvað þetta íþróttafólk var að borða fyrir. Það lítur út fyrir að þeir séu svolítið í ruslfæði og þarna er verið að búa til vegan-útgáfur af ruslfæði. Það var talað um plant-based kjúklingavængi. Mér finnst það ekki alveg rétt skilaboð að það eigi bara að halda áfram að borða nákvæmlega sama matinn en skipta kjúklingnum út fyrir gervikjúkling sem er kannski ágætur.“

Segir Elísabet gullnu regluna þá að mataræðið sé fjölbreytt. „Þetta snýst ekki um að fara í einhverjar algjörar öfgar. Þú þarft ekkert að borða súper fæði alla daga.“

Viðtalið við Elísabetu má hlusta í spilaranum hér að ofan.