Snúið verk í sviðsetningu

Mynd: Þjóðleikhús / Þjóðleikhús

Snúið verk í sviðsetningu

02.11.2018 - 09:05

Höfundar

María Kristjánsdóttir, leiklistargagnrýnandi Víðsjár, segir einhverja þreytu hafa einkennt sviðsetningu á verkinu Samþykki eftir Ninu Raine í Þjóðleikhúsinu, „ekki bara vegna hinna mörgu plana heldur einkum vegna þess hve mikill heimspekilegur textinn er og leikur að texta, að hætti Breta, ekki beinlínis styrkur íslensks leikhúss.“

María Kristjánsdóttir skrifar:

Breski rithöfundurinn, Nina Raine, hefur skrifað leikverk beint inn í okkar „églíka“-tíma um sannleikann, réttlæti, hefnd, fyrirgefningu. Þetta er langt verk og viðfangsefnin svo mörg að vafalaust gætu sum önnur leikskáld notað þau í tvö eða þrjú verk. En Nina kann vissulega þá tækni að byggja upp verk, skrifa hnyttin samtöl, einvígi með orðum og skapa persónur í naturalískum anda.

Samþykki heitir verkið í góðri þýðingu Þórarins Eldjárns og fjallar um sex vini af efri millistétt, flest þeirra eru lögfræðingar. Ekkert sérstaklega viðfelldið fólk. Vinirnir Ed (Snorri Engilbertsson) og Tim (Stefán Hallur Stefánsson) eru sækjandi og verjandi í máli alþýðustúlkunnar Gayle (Arndísar Hrannar Egilsdóttur) sem hefur verið nauðgað. En sannleikanum þar drekkja þeir kumpánar í lagatæknimáli breskra dómstóla og yfirlæti gagnvart lágstéttinni. Nauðgarinn sleppur. Hefst þá meginatburðarásin, stúlkan hverfur sem draugur inn í framvinduna sem nú leitar inn á við í lögfræðingahópinn sjálfan. Hann þarf að glíma við hvað er sannleikur og hvað er réttlæti í samskiptum sín í millum; gera stofur sínar að dómssölum. Og eru þau átök krydduð með draugagangi og vísunum í gríska harmleiki.

Kristín Jóhannesdóttir leikstýrir verkinu á stóra sviði Þjóðleikhússins og Stígur Steinþórsson hannar leikmynd, Þórunn María Jónsdóttir skapar búninga. Sviðið er hallandi pallur sem má velta. Hann er það rými sem ólíkum híbýlum og einkamálum vinanna eru gefin og það að pallurinn er valtur á sennilega að vísa til hversu veikar undirstöður séu undir tilfinningum þeirra og skoðunum. En markvisst er það ekki notað í sýningunni. Ofurháir fallega formaðir marmara glerveggir í grængráu og blásvörtu ramma pallinn inn á tvo vegu. Þeir gefa mikla möguleika í lýsingu en einnig það er ekki nýtt nema að takmörkuðu leyti. Atriði sem fara fram utan heimilana eru leikin fyrir framan pallinn. Skiptingar á milli samverustaða eru leystar með því að víkingasveit sviðsmanna skiptir um húsgögn og taka stundum leikara haustaki og leiða þá einnig út eins og brúður eða sakamenn. Hér er ef til vill verið að vísa í gríska þráðinn og örlögin eða verið að undirstrika að allar séu persónurnar sekar um eitthvað.

Þetta er erfitt verk í sviðsetningu ekki bara vegna hinna mörgu plana heldur einkum vegna þess hve mikill heimspekilegur textinn er og leikur að texta, að hætti breta, ekki beinlínis styrkur íslensks leikhúss. Sýningin í heild nær enda ekki að vinna nógu vel úr verkinu. Það er einhver þreyta, orkuleysi sem einkennir stóran hluta hennar fyrir hlé sem tekst þó að yfirvinna í síðari hlutanum.

Ópersónuleg leikmyndin sem hæfir betur harmleik en tragíkomedíu og flöt lýsingin vinna gegn leikurunum og valda því að þeir ná ekki fram til áhorfandans heldur renna saman við bakveggi; og ef til vill á þetta verk einfaldlega ekki heima á Stóra sviðinu heldur í Kassanum því að öll atriðin leikin fyrir framan hið eiginlega leiksvið ná heim.

Samt er það nú þannig að Stefán Hallur Stefánsson sem leikur Tim, hinn klaufalega piparsvein hefur þá stærð og fas að vel smíðuð persóna hans alveg út í smæstu hreyfingar, studd vel af gervi og búningi Þórunnar Maríu, nær fram, vekur áhuga, frá byrjun til loka. Flestir aðrir leikarar eiga sína spretti einkum í átakasenum svo sem Snorri Engilbertsson í hlutverki oflátungsins Ed sem er til að byrja með ákaflega litlaus en vex í framvindunni og sem kokkálaður eiginmaður sýnir hann flott tilþrif í sársauka og reiðiköstum. Þó það sé nú kannski einum of langt gengið í natúralisma að láta áhorfanda á stöku stað óttast um líf hans. Eftirtektarvert fannst mér að þær góðu leikkonur Birgitta Birgisdóttir sem lögfræðingurinn Rakel, kona Jakes, og Vigdís Pálsdóttir sem leikonan Zara skiluðu hvorugar því sem ætlast má til af þeim. Búningar og gervi studdu ekki persónusköpun og reyndar vann kóreógrafía á móti þeim, og það að oft er ekki unnið nógu vel úr samböndum og þróun tengsla milli persóna.

En eins og áður segir er ekki auðvelt að sviðsetja þetta verk og áhorfanda grunar að tíminn hafi verið naumt skammtaður til æfinga á sviðinu sjálfu, það hefur gerst áður. Leikhúsáhugafólki skal því ráðlagt að mæta í fyrsta lagi á fjórðu sýningu. Mér leiddist nefnilega aldrei þrátt fyrir þá annmarka sem bent hefur verið á því að hér er úr miklu að moða fyrir hugann um samtímann.

Framkvæmdastjóra Þjóðleikhússins vil ég hins vegar ráðleggja að skoða hvað er að gerast í ljósadeild hússins en henni hefur mikið hrakað á undanförnum árum.